Ferilskrá

Guðlaugur Þór hóf ungur afskipti af stjórnmálum og varð fljótt treyst til áhrifa á þeim vettvangi. Eftir stúdentspróf frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1987 tók við farsæll ferill í ungliðapólitíkinni. Guðlaugur Þór var kjörinn í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna, SUS, 1987, varð varaformaður tveimur árum síðar og síðan formaður 1993. Gegndi hann formennsku í fjögur ár samhliða því að sinna öðrum mikilvægum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn og trúnaðarstörfum í erlendum systursamtökum SUS. Samhliða formennsku sinni í SUS stundaði Guðlaugur Þór nám í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og brautskráðist þaðan vorið 1996. Guðlaugur Þór sat í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins í sex ár, í framkvæmdastjórn 1993-1997 og tók nokkrum sinnum sæti á Alþingi sem varaþingmaður Vesturlandskjördæmis á árunum 1997 og 1998.

Guðlaugur Þór var kjörinn í borgarstjórn Reykjavíkur fyrir Sjálfstæðisflokkinn árið 1998 og var borgarfulltrúi í átta ár. Á þeim tíma starfaði hann í ýmsum ráðum og stjórnum á vegum borgarinnar og var atkvæðamikill í þeim störfum.

Guðlaugur Þór hefur sinnt ýmsum félagstörfum utan stjórnmálanna. Hann var stjórnarmaður í Neytendasamtökunum frá 2002-2006 og átt sæti í stjórn Vímulausrar æsku á sama tíma. Þá var hann formaður íþróttafélagsins Fjölnis í Grafarvogi 2003-2007.

Guðlaugur Þór hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu. Hann starfaði um langt árabil við tryggingamiðlun og fjármál hjá Vátryggingafélagi Íslands, Fjárvangi/Frjálsa fjárfestingarbankanum og Búnaðarbankanum. Árin 1997-1998 var hann framkvæmdastjóri fjölmiðlafyrirtækisins Fíns miðils.

Guðlaugur Þór hefur átt sæti á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá árinu 2003. Hann var skipaður heilbrigðis- og tryggingaráðherra vorið 2007 og gegndi embætti heilbrigðisráðherra til 1. febrúar sl.

Fjölskylda

Guðlaugur Þór er fæddur í Reykjavík 19. desember árið 1967. Foreldrar hans eru hjónin
Þórður Sigurðsson, fyrrverandi yfirlögregluþjónn í Borgarnesi, og Sonja Guðlaugsdóttir bókari. Guðlaugur er kvæntur Ágústu Johnson framkvæmdastjóra og líkamsræktarfrömuði og eiga þau saman tvö börn en Ágústa á tvö börn frá fyrra hjónabandi.

Theme by Anders Norén