Fyrri verk

Heilsustefna til framtíðar

 • Guðlaugur Þór kynnti sérstaka heilsustefnu í nóvember 2008 eftir víðtæka stefnumótun þar sem lögð var áhersla á þátttöku þeirra sem starfa í framlínunni (grasrótinni).
 • Áhersluþættir heilsustefnunnar eru heilsuefling, hreyfing, næring og geðvernd.
  Um er að ræða langtímaverkefni en fyrstu aðgerðir voru kynntar í nóvember.
  Umsjón með framkvæmd heilsustefnunnar er hjá Lýðheilsustöð.

 

 

LSH  viðsnúningur í rekstri og unnið á biðlistum

 • Í kjölfar breytinga á stjórnun LSH þar sem hvatt var til valddreifingar og dreifðrar ábyrgðar stjórnenda varð verulegur viðsnúningur á rekstri LSH. Rekstrarhalli spítalans árið 2008 var um 1% að teknu tilliti til gengisáhrifa samanborið við 5,5 % halla á sama tímabili árið áður. Á sama tíma var vaxandi eftirspurn eftir þjónustu spítalans. Verulegur árangur náðist í að vinna á biðlistum og heyra gangainnlagnir um nætur sögunni til. Sumarstarfsemi var meiri síðasta sumar en mörg sumur þar á undan vegna formlegrar samvinnu LSH og Kragasjúkrahúsanna (Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, Heilbrigðisstofnunar Akraness og St. Jósefsspítala)
  sem Guðlaugur Þór efndi til í ársbyrjun 2008.
 • Sjúklingar á LSH sem voru með vistunarmat og biðu varanlegrar vistunar voru 139 í lok janúar 2008. Undir lok ársins hafði nær tekist að eyða þessum biðlistum. Áhersla stjórnvalda og stjórnenda spítalans á að eyða biðlistum á öldrunardeildum og góður árangur í rekstri hefur styrkt spítalann í sessi sem raunverulegt bráðasjúkrahús Íslendinga. Þessu má lýsa þannig að hefði skapast neyðarástand í Suðurlandsskjálftanum 29. maí 2008 hefði LSH getað tekið við rúmlega 50 sjúklingum frá svæðinu. Hefði slíkt neyðarástand komið upp í maí 2007 hefði Landspítalinn aðeins með góðu móti getað tekið við 10 sjúklingum.

 

Lyfjakostnaður lækkaður um 1,5 milljarð króna

 • Útgjöld til lyfjamála eru stærsti einstaki kostnaðarliðurinn í heilbrigðismálum á eftir launakostnaði. Nam kostnaður Sjúkratrygginga Íslands vegna lyfja rúmum 9 milljörðum króna á síðasta ári. Eitt fyrsta verk Guðlaugs Þórs sem heilbrigðisráðherra var að fara ítarlega ofan í saumana á lyfjakostnaði með það fyrir augum að lækka lyfjakostnað sjúklinga annars vegar og draga úr lyfjakostnaði ríkisins hins vegar.
 • Á síðasta ári var gripið til margvíslegra aðgerða til að halda aftur af kostnaðarhækkunum vegna lyfja. Gróflega áætlað lækkaði lyfjaverð um 1,5 milljarða króna ef miðað er við útsöluverð lyfja og lyfjaveltu síðasta árs.

 

Heimahjúkrun efld

 • Guðlaugur Þór stóð fyrir markvissum aðgerðum til að styðja við búsetu aldraða og langveikra í heimahúsum. Það var gert með eflingu heimahjúkrunar og heimaþjónustu, fjölgun hvíldar- og endurhæfingarrýma, eflingu geðheilbrigðisþjónustu fyrir aldraða, auknu aðgengi að greiningu og sérhæfðri meðferð í öldrunarlækningum. Þá var úrræðum í dagþjálfun og skammtímarýmum fyrir heilabilaða fjölgað.
 • Á síðasta ári var 300 milljónum kr. veitt  í að stórauka heimahjúkrun við aldraða og
  gera þeim kleift að búa heima eins lengi og kostur er. Þrátt fyrir stórfelldan niðurskurð
  til heilbrigðismála í fjárlögum ársins 2009 tókst að verja 400 milljóna króna fjárveitingu
  sem ætlað er að efla heimahjúkrun enn frekar á þessu ári. Mismunandi leiðir eru farnar
  að þessu markmiði eftir sveitarfélögum. Í Reykjavík hefur þannig farið í gang tilraunaverkefni til þriggja ára þar sem heimahjúkrun er flutt til sveitarfélaga með þjónustusamningi.

 

Heilsustefna til framtíðar

 • Guðlaugur Þór kynnti sérstaka heilsustefnu í nóvember 2008 eftir víðtæka stefnumótun þar sem lögð var áhersla á þátttöku þeirra sem starfa í framlínunni (grasrótinni).
 • Áhersluþættir heilsustefnunnar eru heilsuefling, hreyfing, næring og geðvernd.
  Um er að ræða langtímaverkefni en fyrstu aðgerðir voru kynntar í nóvember.
  Umsjón með framkvæmd heilsustefnunnar er hjá Lýðheilsustöð.

 

 

Starfsemi BUGL efld til muna

 • Haustið 2007 lagði Guðlaugur Þór til aukið fjármagn eða 150 milljónir króna til styrktar starfsemi Barna- og unglingageðdeildar Landspítala (BUGL). Áður hafði hann leitað eftir því að stjórnendur og starfsfólk BUGL kæmu með tillögur um aðgerðir í því skyni að efla starfsemi deildarinnar. Í kjölfar þeirrar aðgerðaáætlunar hefur starfsemi BUGL eflst og mun fleiri notið þjónustu deildarinnar en áður

 

Markvissari stjórnun og skipulag

 • Berglind Ásgeirsdóttir var ráðin nýr ráðuneytisstjóri heilbrigðisráðuneytis. Í kjölfarið var fagskrifstofum heilbrigðisráðuneytis fækkað úr 13 í 3 með áherslu á stefnumótun, fjármál og lögfræðileg viðfangsefni.
 • Hulda Gunnlaugsdóttir var ráðin forstjóri Landspítala. Þá vann  nefnd sem Guðlaugur Þór skipaði undir forystu Vilhjálms Egilssonar með yfirstjórn spítalans að því að ná tökum á rekstri og skoða framtíðarskipulag. Hulda Gunnlaugsdóttir boðaði í kjölfarið nýtt skipulag með umtalsverðri fækkun sviða og meiri dreifstýringu valds og ábyrgðar í rekstri.
 • Sjúkratryggingar Íslands voru stofnaðar um sjúkratryggingahluta TR, samninganefnd heilbrigðisráðherra og samningagerð innan heilbrigðisráðuneytis. Steingrímur Ari Arason var ráðinn forstjóri, en stofnuninni er ætlað að skipuleggja kaup, greiðslur og samninga um heilbrigðisþjónustu og styrkja þannig kaupendahlutverk hins opinbera.
 • Svanhvít Jakobsdóttir, sviðsstjóri fjármála í heilbrigðisráðuneyti, var sett tímabundið í stöðu forstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þá hefur nefnd sem Guðlaugur Þór skipaði undir forystu Guðjóns Magnússonar verið að skoða rekstur stofnunarinnar og koma með tillögur að framtíðarskipulagi.

 

Eldri greinar eftir Guðlaug Þór

Laugardaginn 14. febrúar, 2009 – Aðsent efni
Horfast_í_augu_við_staðreyndir.pdf

Þriðjudaginn 12. ágúst, 2008 – Aðsent efni
Árangur_á_einu_ári.pdf

Fimmtudaginn 17. júlí, 2008 – Aðsent efni
Að_styrkja_heilsugæsluna.pdf

Fimmtudaginn 29. nóvember, 2007 – Aðsent efni
Heilsustefna_islendinga.pdf

Mánudaginn 5. mars, 2007 – Aðsent efni
vinstri_grænir.pdf

Fimmtudaginn 1. mars, 2007 – Aðsent efni
Sovésk_stóriðjustefna_vinstriflokkanna.pdf

 

Ögmundur gerir lítið úr vinnu fjölda sérfræðinga.

22.02.09

 

 

Því miður hefur núverandi heilbrigðisráðherra ákveðið að draga til baka ákvarðanir um sameiningu heilbrigðisstofnana og skipulagsbreytingar. Það var farið út í þær breytingar til að vernda heilbrigðisþjónustuna og störf heilbrigðisstarfsmanna. Stofnunum átti að fækka úr 22 í 6 og þar af leiðandi fækka stjórnendum en verja þess í stað störf heilbrigðsstarfsfólks. Það er ekki auðvelt að taka slíkar ákvarðanir enda er hér um að ræða stjórnendur sem að hafa skilað góðu starfi og eiga allt gott skilið. Það er engu að síður nauðsynlegt að fara í þessar aðgerðir.

 

Ögmundur hefur með ákvörðun sinni ákveðið að skerða þjónustu við landsmenn og setur störf heilbrigðisstarfsfólks í uppnám. Hann hefur ekki upplýst hvar eigi að spara í staðinn og þýðir það mikla óvissu fyrir stjórnendur og starfsfólk heilbrigðisstofnana. Í stað þess að koma með eigin hugmyndir þá heldur hann áfram að gagnrýna mig og heldur því fram að tillögurnar sem ég lagði fram hafi verið illa undirbúnar. Því fer fjarri. Til að upplýsa ykkur um hvernig að þessum málum var staðið er hér stiklað á stóru í undirbúningsferlinu og birtir  vinnuhóparnir sem að málinu unnu í janúar og að lokum grein sem að ég skrifaði í Morgunblaðið um málið.

 

 

Undirbúningur:

 •  Í ársbyrjun 2008 tók nefnd um LSH og HH til starfa.
 •  Í ágúst 2008 er starf HH nefndar útvíkkað í að skoða rekstur Kragasjúkrahúsa.
 •  Í september var sett í gang vinna við skoðun á HSA og HSS vegna hallareksturs.
 •  Á sama tíma var ríkisendurskoðun falið að skoða árangur af samruna HSA
 •  Í lok nóvember skiluðu allir aðilar  af sér gögnum nema ríkisendurskoðun sem skilaði drögum sínum í lok desember.
 •  Í byrjun desember kallaði fjármálaráðuneyti eftir tillögum um 10% hagræðingu frá einstökum stofnunum.
 •  2. desember var haldinn fundur með öllum sviðstjórum og lykilstarfsmönnum HBR til að bregðast við kröfum fjármálaráðuneytis.
 •  7. desember er vinnufundur um tillögur stofnana og útfærslur ráðuneytis ræddar.
 •  8. desember voru allir stjórnendur kragasjúkrahúsa kallaðir til vinnufundar um frumútfærslur á breyttu skipulagi.
 •  10. desember eru allir stjórnendur stofnana á Norðurlandi kallaðir til vinnufundar ásamt lykilfólki ráðuneytisins. Hagræðingartækifæri kortlögð. Vinnu framhaldið daginn eftir.
 •  11.-22. desember vinna ráðuneytisins við útfærslur til að koma til móts við fjárlagaramma.
 •  23. desember fjárlög samþykkt.
 •  27. desember til 7. janúar unnar nánari tillögur með ráðuneytisfólki, stjórnendum Kragasjúkrahúsa og í samvinnu við HSU, Akranes og FSA.
 •  7. janúar breytingar kynntar.
 •  8. janúar – 27. janúar útfærslur í vinnuhópum.
 •  1. febrúar verkefni sett í bið.

 

Vinnuhópar vegna skipulagsbreytinga

 

Verkefnisstjórnir skipuðu

Hanna Katrín Friðriksson, aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra, Sveinn Magnússon, yfirlæknir HBR, Hallgrímur Guðmundsson, framkvæmdastjóri stefnumótunarsviðs HBR, Ragnar Þ. Guðgeirsson, ráðgjafi hjá HBR Í einstökum verkefnum: Árni Sverrisson, forstjóri St. Jósefsspítala, Halldór Jónsson, forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri, Guðjón Brjánsson, forstjóri SHA, Magnús Skúlason, forstjóri HSU, Þröstur Óskarsson, forstjóri HSV,

Vinnuhópur um skurðstofur; Ragnar Þ. Guðgeirsson, ráðgjafi hjá HBR, hópstjóri. Ragnhildur Jóhannsdóttir, deildarstjóri húkrunar á skurðdeildar STJÓ, Sveinn Geir Einarsson, svæfingarlæknir á STJÓ, Oddur Fjalldal, sviðsstjóri hjá LSH, Sigríður Snæbjörnsdóttir, forstjóri HSS, Elís Reynarsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs HSS, Árni Sverrisson, forstjóri STJÓ sem á sæti í verkefnisstjórn sat einnig fundi hópsins.

Vinnuhópur um flutning meltinga- og lyflækningadeildar St. Jósefsspítala; Björn Zoega, lækningaforstjóri LSH, hópstjóri. Ásgeir Theodórs, lækningaforstjóri St. Jósefsspítala-Sólvangs, Kristín Ólafsdóttir, deildarstjóri hjúkrunar hjá St. Jósefsspítala-Sólvangi, Guðmundur Þorgeirsson, sviðsstjóri LSH, Vigdís Hallgrímsdóttir, HBR, Gunnar Magnússon, fulltrúi úr LSH-nefnd sat einnig fundi með hópnum.

Vinnuhópur um öldrunarlækningar í Hafnarfirði; Margrét Björnsdóttir, HBR, hópstjóri. Gunnar Valtýsson, yfirlæknir á Sólvangi, Gunnar Rafn Sveinbjörnsson, Hafnarfjarðarbæ,

Birna G. Flygenring, hjúkrunarforstjóri St. Jósefsspítala-Sólvangs,

Ólafur Þór Gunnarsson, yfirlæknir LSH,

Helgi Freyr Kristinsson, fjármálastjóri St. Jósefsspítala-Sólvangs.

Dagný Brynjólfsdóttir, HBR.

Vinnuhópur um fæðingarþjónustu á Suðurlandi og Suðurnesjum; Guðrún Sigurjónsdóttir, HBR, hópstjóri. Sigríður Snæbjörnsdóttir, forstjóri HSS, Anna María Snorradóttir, HSU, Rannveig Rúnarsdóttir, sviðstjóri LSH, Hildur Harðardóttir, LSH,

Stuðningshópur ráðuneytisins; Guðríður Þorsteinsdóttir, skrifstofustjóri HBR.

Hrönn Ottósdóttir, sviðsstjóri fjármála og rekstrar HBR.

Sveinn Magnússon, yfirlæknir HRB.

 

Norðurland

Vinnuhópur um heilsugæslu:

Jón Helgi Björnsson, forstjóri HSÞ, formaður. Hafsteinn Sæmundsson, forstjóri HS, Bjarni Jónasson, starfsmannastjóri FSA, Anna Gilsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Siglufirði, Unnsteinn Júlíusson, heilsugæslulæknir Húsavík (HSÞ), Sveinfríður Sigurpálsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Blönduósi, Örn Ragnarsson, yfirlæknir HS, Ásgeir Bjarnason, læknir Ólafsfirði, Guðmundur Pálsson, læknir Dalvík.

Vinnuhópur um skipulag sérhæfðrar þjónustu og hjúkrunardeilda; Þorvaldur Ingvarsson, framkvæmdastjóri lækninga á FSA, formaður. Ólína Torfadóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á FSA, Herdís Klausen, framkvæmdastjóri hjúkrunar HSS, Óskar Jónsson, yfirlæknir HSS, Ásgeir Böðvarsson, framkvæmdastjóri lækninga HSÞ, Áslaug Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Húsavík, Andrés Magnússon, yfirlæknir Siglufirði, Anna Gilsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar Siglufirði, Sveinfríður Sigurpálsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Blönduósi, Héðinn Sigurðsson, framkvæmdastjóri lækninga á Blönduósi. Vinnuhópur um sjúkraflutninga; Hildigunnur Svavarsdóttir, formaður. Björn Gunnarsson, Konráð Karl Baldvinsson, Sigurður Halldórsson, Sveinbjörn Dúason, Vernharð Guðnason,

Vinnuhópur um rannsóknir og myndgreiningu; Ólöf Sigurðardóttir, yfirlæknir rannsóknadeildar FSA, formaður. Hallgrímur Hreiðarsson, læknir á Húsavík, Elvar Örn Birgisson, yfirgeislafræðingur á FSA, Orri Einarsson, yfirlæknir myndgreiningardeildar FSA, Þorsteinn Þorsteinsson, læknir HSS (Valþór Stefánsson, læknir), Andrés Magnússon yfirlæknir Siglufirði, Héðinn Sigurðsson, framkvæmdastjóri lækninga á Blönduósi.

Vinnuhópur um stoðdeildarþjónustu; Vignir Sveinsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs á FSA, formaður. Konráð Karl Baldvinsson, forstjóri á Siglufirði, Hafsteinn Sæmundsson, forstjóri HSS, Sigurður E. Sigurðsson, yfirlæknir á FSA, Valbjörn Steingrímsson, forstjóri á Blönduósi, Regína Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri fjármála á HÞ og Bjarni Jónasson, starfsmannastjóri FSA.

 

Suðurland

Vinnuhópur um heilsugæslu;

Óskar Reykdalsson, HSu

Eydís Ósk Sigurðardóttir, HSV

Ester Þorvaldsdóttir, HSSA

Vinnuhópur um sérhæfða starfsemi sjúkradeilda; Anna María Snorradóttir, HSu, Ásgerður K. Gylfadóttir, HSSA, Hjörtur Kristjánsson, HSV.

Vinnuhópur um sjúkraflutningar, röntgen, rannsóknir og stoðdeildir; Magnús Skúlason, HSu, Esther Óskarsdóttir, HSu, Gunnar K. Gunnarsson, HSV og Guðrún Júlía Jónsdóttir, HSSA.

 

Vesturland

Vinnuhópur um sjúkraflutninga;

Linda Kristjánsdóttir, læknir, hópstjóri. Gísli Björnsson, deildarstjóri sjúkraflutninga hjá SHA, Akranesi Eyþór Garðarsson, sjúkraflutningamaður, Grundafirði, Gunnar S. Jónsson, sjúkraflutningamaður, Hólmavík. Vinnuhópur um rannsóknir og myndgreiningu;

Gróa Þorsteinsdóttir Geislafræðingur, deildarstjóri myndgreiningardeildar SHA, Erla Bragadóttir Lífeindafræðingur, Heilsugæslustöð Ólafsvíkur, Eyjólfur Harðarson Lífeindarfæðingur, deildarstjóri rannsóknarstofu SHA, Hafdís Bjarnadóttir yfirlífeindafræðingur, deildarstjóri rannsóknarstofu St. Franciskusspítala.

Vinnuhópur um Heilsugæslu;

Rósa Marinósdóttir hjúkrunarfræðingur Heilsugæslustöðinni Borgarnesi, Reynir Þorsteinsson, læknir Heilsugæslustöðinni Akranesi, Fanný Berit Sveinbjörnsdóttir, hjúkrunarfræðingur/ljósmóðir, Heilsugæslustöðinni Ólafsvík, Þórður Ingólfsson, Heilsugæslustöðinni Búðardal, Guðmundur Sigurðsson, Heilbrigðisstofnuninni Hólmavík og Ágúst Oddson, Heilbrigðsstofnuninni Hvammstanga.

Vinnuhópur um sérhæfðaþjónustu, sjúkra- og hjúkrunardeilda; Björn Gunnarsson, yfirlæknir á Akranesi, Helga Hreiðarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Hvammstanga, Jóhanna F. Jóhannesdóttir, verkefnastjóri á Akranesi og Jósep Ó. Blöndal, yfirlæknir í Stykkishólmi.

 

Hópavinna á Vestfjörðum var ekki kominn í gang en gert var ráð fyrir að hún yrði í höndum framkvæmdastjórnar auk fulltrúa frá Patreksfirði og Bolungarvík.

 

Nauðsynlegur sparnaður

Þegar fjárlög ársins 2009 voru samþykkt 22. desember á síðasta ári var staðfest að heilbrigðisyfirvöldum var ætlað að draga úr rekstrarkostnaði í heilbrigðiskerfinu um 6,7 milljarða króna á árinu 2009. Þá liggur fyrir að sparnaðarkrafan mun að öllum líkindum verða enn meiri á næsta ári. Það er ekki síst af þeirri ástæðu sem mikilvægt er að grípa til skipulagsbreytinga í heilbrigðiskerfinu sem ekki hafa eingöngu áhrif á þessu ári, heldur jafnframt á árinu 2010.

Eins og kunnugt er, kynnti ég í upphafi árs skipulagsbreytingar sem ætlað var að lækka kostnað í heilbrigðiskerfinu um allt að 1,3 milljarða kr. Einnig var hafinn undirbúningur að því að lækka lyfjakostnað um einn milljarð króna til viðbótar þeim eins og hálfs milljarðs króna sparnaði sem þegar hafði náðst frá vorinu 2007. Þá var gerð hagræðingarkrafa upp á 2,6 milljarða kr. á sjúkrahúsin á höfuðborgarsvæðinu. Auk þess gerðu fjárlög ráð fyrir nýrri gjaldtöku upp á 360 milljónir króna í heilbrigðiskerfinu svo eitthvað sé nefnt.

Við fjárlagagerðina markaði ég þá stefnu að staðinn yrði vörður um heilbrigðisþjónustu við aldraða og langveika í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í maí 2007. Þannig var heilbrigðisþjónusta í heimahúsum efld samhliða því að framboð á hvíldar- og endurhæfingarúrræðum fyrir langveika á öllum aldri var aukið. Það er ljóst að þessar aðgerðir draga úr þörf fyrir kostnaðarsama langtímavistun á hjúkrunarheimilum til framtíðar og gerir jafnframt að verkum að lífsgæði fólks aukast því flestir kjósa að vera sjálfs sín ráðandi á eigin heimilum eins lengi og kostur er.

Skipulagsbreytingar á Kragasvæðinu

Vorið 2008 fól ég nefnd undir forystu Guðjóns Magnússonar læknis og fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni að kanna starfsemi heilbrigðisstofnana á svokölluðu Kragasvæði: Akranesi, Selfossi, Reykjanesbæ og í Hafnarfirði. Nefndin skilaði minnisblöðum með athugasemdum og tillögum á haustmánuðum 2008 en þar er mörkuð sú stefna að auka áherslu Kragasjúkrahúsanna á lyflækningar sem eru vaxandi þáttur í nærþjónustu en jafnframt að hagræða í skurðstofurekstri.

Í ljósi fyrirsjáanlegs niðurskurðar á fjárlögum var hraðað til muna vinnu við að móta skipulagsbreytingar sem gætu orðið til þess að ná inn sem stærstum hluta þess niðurskurðar sem fyrir höndum var án þess að skerða þjónustu, lengja biðlista, auka kostnaðarhlutdeild sjúklinga eða grípa til uppsagna starfsfólks nema í sem allra minnstum mæli. Síðustu daga ársins 2008 lögðu sérfræðingar heilbrigðisráðuneytis nótt við dag við að útfæra hugmyndir að skipulagsbreytingum sem að stórum hluta byggðust á niðurstöðum fyrrnefndrar nefndar. Ég fundaði með stjórnendum heilbrigðisstofnana á Kragasvæðinu og Landspítala, bæjarstjórnarmönnum á viðkomandi stöðum og þingmönnum viðkomandi kjördæma. Einnig kynnti ég fyrirhugaðar skipulagsbreytingar á fundi ríkisstjórnar. Markmiðið var að leita leiða til að hámarka nýtingu þeirra mannvirkja og þess búnaðar sem til var og losna við ríkisábyrgð á verktakarekstri í Hafnarfirði. Þar liggur m.a. fyrir að lítið samræmi er á milli launa þeirra lækna sem þarf starfa og þeirra sem starfa annars staðar í heilbrigðiskerfinu.

Færri skurðstofur, sami fjöldi aðgerða

Í byrjun janúar sl., eftir að skipulagsbreytingarnar höfðu verið kynntar, tóku fjórir vinnuhópar, skipaðir fagfólki af viðkomandi heilbrigðisstofnunum, til starfa um nánari útfærslur og lágu niðurstöður hópanna fyrir í janúarlok.

Hugmyndafræðin á bak við fyrirhugaðar skipulagsbreytingar á skurðstofurekstri á Kragasvæðinu er einföld. Ætlunin var að fækka skurðstofum í fullum rekstri úr fimm í tvær, með sama heildarfjölda aðgerða að teknu tilliti til þeirra sem flytja átti inn á LSH. Verkefni skurðstofuhóps ekki síst í að greina kostnað við aðgerðir. Í ljós kom að óverulegur munur var á kostnaði við samsvarandi aðgerðir milli LSH og St. Jósefsspítala þó viðurkennt sé að grunnkostnaður LSH sé mun hærri vegna fræðsluhlutverks, vakta, gjörgæslu og reksturs blóðbanka, svo dæmi sé tekið. Almennt mætti gera kröfu um að sjúkrahús á borð við St. Jósefsspítala væri með um 25-30% lægri gjaldskrá en LSH. Þessi staðreynd sýnir svo ekki er um villst að breytinga er þörf.

Lagt var til að sérstök rekstrareining undir stjórn fagfólks á St. Jósefsspítala tæki að sér þann hluta skurðaðgerða sem felst í kvenlækningum, bæklunarlækningum og lýtalækningum. Forsenda þess var að starfsemin færðist í aðstöðu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja sem er talin fyrsta flokks. Jafnframt var gert ráð fyrir að skurðstarfsemi sem nú er á Suðurnesjum færðist inn í þann rekstur.

Þá var gert ráð fyrir að almennar skurðlækningar, háls- nef- og eyrnaaðgerðir, augnlækningar og tannlækningar færðust tímabundið inn á LSH á grundvelli jaðarkostnaðar eða yrðu boðnar út fyrir milligöngu Sjúkratrygginga Íslands.

Útreikningar vinnuhópsins sýndu mögulega hagræðingu að fjárhæð um 160 milljónir kr. Stofnkostnaður á fyrsta ári á Suðurnesjum var metinn um 40 milljónir kr. en Reykjanesbær hafði boðist til að standa straum af þeim kostnaði, næðist sátt um aðkomu sveitarfélagsins að þessu verkefni. Þá var stefnt að því að LSH yfirtæki rekstur skurðstofu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands með tilheyrandi 60 milljóna króna árlegum sparnaði.

Vinnuhópur um fæðingaþjónustu lagði upp með spara 65 milljónir kr. árlega með því að leggja niður vaktir skurðstofu á Selfossi og í Keflavík. Niðurstaða hópsins var að líklega þyrfti að bæta við stöðugildum á LSH til að taka við aukinni starfsemi. Einnig var tillaga hópsins að koma á bakvöktum ljósmæðra á Selfossi og í Keflavík til reynslu í 6 mánuði. Að teknu tilliti til þessara athugasemda vinnuhópsins næðist 35 milljóna kr. árlegur sparnaður af þessum aðgerðum.

Niðurstaða vinnuhóps um göngudeild meltingarsjúkdóma og lyflækningar staðfesti að með því að greiða LSH aðeins jaðarkostnað af þeim viðbótarverkefnum sem áætlað var að færa frá St. Jósefsspítala til LSH væri mögulegt að spara á ársgrundvelli um 200 m.kr. Á móti var stofnkostnaður á fyrsta ári vegna breytinganna áætlaður 20-100 milljónir kr. eftir því hvaða leið var farin við val á nýrri aðstöðu.

Endurskipulagning á St. Jósefsspítala

Fjórði vinnuhópurinn vann að því að skoða mögulega endurskipulagningu á starfsemi í húsnæði St. Jósefsspítala. Til þess að koma til móts við óskir Hafnfirðinga um möguleika á lyfjadeildarinnlögnum í Hafnarfirði lagði hópurinn til að haldið yrði áfram þeirri þjónustu sem falist hefur í innlögnum sjúklinga sem koma frá LSH og frá heilsugæslu. Að öðru leyti var miðað við að ný þjónusta kæmi í húsið með þeirri fjármögnun sem henni fylgdi. Þessi breyting myndi þannig skila 95 milljóna kr. sparnaði af þeim 175 milljónum sem upphaflega var stefnt að.

Að auki var gert er ráð fyrir að stofnkostnaður vegna þessa á fyrsta ári gæti numið 100-120 milljónum kr. Á móti er hér gengið út frá aðkomu Hafnarfjarðarbæjar enda óskaði heilbrigðisráðuneytið eftir því í lok janúar þegar niðurstöður vinnuhópa lágu fyrir, að Hafnarfjarðarbær tilnefndi þrjá fulltrúa í starfshóp sem hefði það hlutverk að móta skipulag framtíðarstarfsemi St. Jósefsspítala, Sólvangs og annað sem snýr að heilbrigðisþjónustu í Hafnarfirði.

Hagræðing upp á 600 milljónir kr.

Til viðbótar við ofangreint var gert ráð fyrir að rannsóknarstofa sem verið hefur á heilsugæslunni legðist af en lágmarksrannsóknaraðstöðu viðhaldið í St. Jósefsspítala. Hagræðing í lækkun kostnaðar vegna húsnæðis, röntgen og rannsókna ætti því að verða um 55 mkr.

Samkvæmt þessum niðurstöðum liggur fyrir eftir allnákvæma athugun með aðkomu hlutaðeigandi fagfólks að raunhæft er að skipulagsbreytingarnar skili um 600 milljóna sparnaði. Hér er þannig um að ræða tæp 10% af þeim heildarniðurskurði sem bíður heilbrigðisyfirvalda á þessu ári.

Sameining heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni

Í byrjun árs kynnti ég líka fyrirhugaðar skipulagsbreytingar á landsbyggðinni sem fólu í sér verulega einföldun á stjórnsýslu stofnana með sameiningu þeirra og ákvörðun um stóraukna samvinnu. Þessar breytingar voru unnar í framhaldi af setningu nýrra laga um heilbrigðisþjónustu sem tóku gildi fyrir rúmu ári. Markmiðið var að slá skjaldborg um kjarnastarfsemi þessara mikilvægu stofnana á erfiðum tímum.

Settir voru af stað 3-5 vinnuhópar innan hvers heilbrigðisumdæmis: Norðurlands, Vesturlands, Suðurlands og Vestfjarða, en skipulagsbreytingar á Austurlandi voru nokkuð lengra á veg komnar. Á Norðurlandi var sett markmið um 300 m.kr. árlegan sparnað og skiluðu vinnuhópar ítarlegum tillögum sem tryggja áttu sparnað án þess að vega að öryggi sjúklinga eða kalla á skerðingu á kjarnaþjónustu. Í einhverjum tifellum komu ábendingar um tækifæri sem gætu falist í aukinni eða nýrri þjónustu við sjúklinga.

Á Vesturlandi var sett markmið um 150 m.kr sparnað. Þar voru áherslur tvíþættar, annars vegar sérhæfð sjúkrasvið á Akranesi og í Stykkishólmi og hins vegar heilsugæsla með hjúkrunar- og bráðarýmum og skiluðu vinnuhópar ítarlegum tillögum að útfærslum.

Á Suðurlandi var sett markmið um 50 m.kr. sparnað. Vinnuhópar skiluðu nákvæmum tillögum um flesta þætti, en þó er enn eftir vinna í tengslum við heilbrigðisþjónustu í Vestmannaeyjum.

Nokkuð dróst að setja vinnu við endurskipulagningu á Vestfjörðum í gang en þar var lagt upp með 25 m.kr. árlegan sparnað. Þegar fyrrverandi ríkisstjórn fór frá 1. febrúar sl. höfðu vinnuhópar því enn ekki skilað tillögum sínum.

Að lokum
Það liggur fyrir að ríkissjóður Íslands er nú rekinn með 150 milljarða króna halla. Það þarf að halda vel á spilunum til þess að koma fjárhag ríkisins og þjóðarbúskapnum aftur á réttan kjöl og aðhald í ríkisfjármálum spilar þar lykilhlutverk.

Hvað varðar heilbrigðismálin er mikilvægt að áfram sé unnið að því  markmiði að Íslendingar hafi aðgang að fyrirmyndar heilbrigðisþjónustu óháð efnahag, eins og kveðið er á um í lögum um heilbrigðisþjónustu. Hins vegar væri óábyrgt að horfast ekki í augu við þær staðreyndir sem við blasa í íslenskum þjóðarbúskap. Heillavænlegast væri að menn tækju saman höndum við að ná inn sem stærstum hluta fyrirhugaðs niðurskurðar í heilbrigðisþjónustu með aðgerðum sem lágmarka eftir því sem kostur er þjónustuskerðingu, lengingu biðlista, aukinn kostnað sjúklinga og uppsagnir heilbrigðisstarfsfólks.

Guðlaugur Þór Þórðarson

Höfundur er fyrrverandi heilbrigðisráðherra

Ef þú hefur ekki Acrobat Reader í tölvunni þinni vinsamlegas hlaðið nyður hér

Leave a Reply

Theme by Anders Norén