Framtíðarsýn

Samstaða um endurreisn
Mánudagurinn 29. september var svartur dagur í sögu íslensku þjóðarinnar. Þjóðfélag okkar hafði þá um 20 ára skeið gengið í gegnum grundvallarbreytingar, sem margar hverjar voru afskaplega jákvæðar. Þeim fylgdu aukin tækifæri, frelsi og jafnrétti sem við bjuggum ekki við áður. Við lærðum margt á þessu tímabili. Margt af því mjög gott. Hér ríkti bjartsýni sem ásamt elju þjóðarinnar skilaði okkur í margvíslegum samanburði upp að hlið þeirra þjóða sem fremst standa í heiminum.

Við fórum þó of geyst, vorum ekki forsjál í velgengninni og gættum ekki að því að gera nauðsynlega aðlögun á lagalegu umhverfi atvinnulífsins vegna breyttra aðstæðna. Við fylgdum ekki því grunnstefi sjálfstæðisstefnunnar að frelsi fylgir ábyrgð. Lagið varð rammfalskt en hljómaði samt vel í eyrum flestra. Þar liggur okkar sök. Þar liggur mín sök og þá ábyrgð vil ég axla og bið íslensku þjóðina aftur einlægrar afsökunar á sofandahætti þeirra sem réðu ferðinni og bera ábyrgð á þeirri stöðu sem við erum í nú.

Bætt heilbrigðiskerfi – betri þjónusta
Síðastliðin tvö ár hafa heilbrigðismál átt hug minn allan. Mín stefna hefur verið sú að færa heilbrigðiskerfið inn í 21. öldina, nýta fjárfestingar betur, bæta þjónustuna og styrkja hag neytenda. Þegar ég tók við heilbrigðisráðuneytinu vorið 2007 sá ég að ef ekkert yrði að gert stefndi heilbrigðiskerfið í þrot. Ég markaði strax þá stefnu að búa þannig í haginn fyrir framtíðina að heilbrigðiskerfið yrði ekki gjaldþrota og gæti staðið við allar sínar skuldbindingar. Það er sú hugsun sem endurreisn Íslands þarf að byggja á.

Öflugt atvinnulíf til framtíðar
Við verðum að móta upp á nýtt starfsumhverfi atvinnulífsins og endurskilgreina hlutverk ríkisins gagnvart atvinnulífinu og neytendum. Ráðvendni og gagnsæi á að vera leiðarljós í þeirri vinnu. Eignarhald fyrirtækja á að vera gagnsætt og réttindi hluthafa skýr. Eftirlitsstofnanir markaðarins eiga að vera starfi sínu vaxnar og fylgja eftir þeim reglum sem eru til staðar. Þær eiga að vera óháðar framkvæmdavaldinu og atvinnulífinu, sjálfstæðar stofnanir þar sem valið er í stjórnunarstörf á faglegum forsendum. Við verðum að skilja hvað fór aflaga og hvers vegna og ganga hreint til verksins á sama tíma og við reynum að bæta fyrir það sem aflaga hefur farið.

Sjálfstæðisstefnan
Sjálfstæðisstefnan er tímalaus. Hún byggir á borgaralegum gildum og trú á frelsi einstaklingsins til orða og athafna. Frelsinu fylgir skiljanlega ábyrgð. Við höfum hins vegar mörg hver fjarlægst sjálfstæðisstefnuna í algleymi velgengni og auðlegðar. Sjálfstæðisflokkurinn stendur eftir laskaður en ekki bugaður. Flokkurinn er sú stofnun sem við höfum sameinast um til að framfylgja sjálfstæðisstefnunni. Þá stofnun er hægt að endurbyggja og endurnæra. Þar er sjálfstæðisstefnan næringin og grasrótin afl þeirra hluta sem gera skal.

Að vera samkvæmur sjálfum sér
Ég kem úr grasrót Sjálfstæðisflokksins og er annt um sjálfstæðisstefnuna og flokkinn.
Ég þekki vel fólkið sem leggja mun fram krafta sína við að rétta kúrsinn og vinna þá vinnu sem framundan er. Ég hræðist ekki verkefnið, framtíðina eða það sem hún ber í skauti sér. Margir töldu það misráðið af mér að taka mér stöðu sem gagnrýnandi stjórnarandstöðunnar í borgarstjórn, sögðu að það myndi gera mig óvinsælan meðal kjósenda. Sama var uppi á teningnum þegar ég tók að mér að verða heilbrigðisráðherra. Ég tel það ekki vera hlutverk stjórnmálamanna að vera stöðugt hræddir og í atkvæðaleit. Þannig hef ekki ekki sinnt mínu starfi. Íslendingar kunna að meta það þegar rösklega er gengið til verka. Stundum á lífsleiðinni finnur maður starf sem einfaldlega þarf að vinna og á vegi manns verða erfið verkefni þar sem lausnirnar skapa óvinsældir og óróa. En það er verkefni stjórnmálamannsins að takast á við og leysa þau verkefni sem verða til hverju sinni. Þannig vil ég vinna mitt starf.

Verkefnin bíða
Það bíða okkar mörg verkefni og sem forystumaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík byggi ég á grasrótinni og sjálfstæðisstefnunni. Ég legg áherslu á ráðvendni og gagnsæi og þann meginskilning að frelsi fylgir ábyrgð. Sjálfstæðisflokkurinn hafði einkunnarorðin stétt með stétt og svo verður á ný þegar við endurvekjum trú sjálfstæðisfólks og annarra landsmanna á hugsjónum okkar og markmiðum.

 

Efnahagsmál

 

Hér á eftir má sjá ýmis áhersluatriði sem ég tel nauðsynleg til að endurreisa megi íslenskt efnahags- og atvinnulíf til hagsbóta fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu.

  • Tryggja þarf aðhald í rekstri og íhaldssama stjórnun fjármála.
  • Fara þarf aftur í gegnum fjárlagafrumvarpið og skera í burtu „fitu“, verkefni sem ekki
    er brýn þörf fyrir á þessum tíma auk gæluverkefna stjórnmálamanna, embættismanna
    og kjördæma.
  • Vinna verður í fullu samráði við alþjóðastofnanir og leita til alþjóðasamfélagsins um
    ráð og úrlausnir hvort sem um er að ræða stjórnvöld, viðskiptalífið eða fræðasamfélagið.
  • Við þurfum að fá erlenda lánardrottna bankanna til samstarfs um rekstur þeirra og framtíðaruppbyggingu. Þetta þarf að gerast sem fyrst.
  • Vextir þurfa að lækka sem allra fyrst, enda verðbólgan að hjaðna hratt. Lægri vextir
    gera arðbærar fjárfestingar í nýjum framleiðslutækjum og þróunarvinnu mögulega.
  • Afnema þarf gjaldeyrishöft og ákveða tímamörk þar að lútandi.
  • Marka þarf ábyrga peningamálastefnu til lengri og skemmri tíma.
  • Koma þarf á nýju eftirlitskerfi með fjármálastarfsemi sem fyrst. Setja á einfaldar reglur
    í stað þess flókna regluverks sem nú er í gildi. Jafnframt þarf að taka mið af því nýja alþjóðlega fjármálakerfi sem er í uppbyggingu.
  • Þörf er á einfaldari og skilvirkari reglum sem skila okkur betri árangri.
  • Stofna þarf umsýslufélög til þess að sjá um eignir og skuldir gömlu bankanna.
    Þessi félög þurfaað vera utan bankanna. Tryggja þarf gagnsæi svo enginn sitji
    beggja vegna borðsins.

 

Viðskiptalífið

 

Endurskoða þarf starfsumhverfi atvinnulífsins og hlutverk ríkisins gagnvart atvinnulífinu
og neytendum.

  • Eignarhald fyrirtækja á að vera gagnsætt og réttindi hluthafa skýr.
  • Eftirlitsstofnanir markaðarins verða að vera starfi sínu vaxnar og fylgja eftir þeim reglum sem eru til staðar. Þær eiga að vera óháðar framkvæmdavaldinu og atvinnulífinu, sjálfstæðar stofnanir þar sem stjórn og stjórnendur eru valdir á faglegum forsendum.

 

Við verðum að skapa fyrirtækjunum eðlilegan starfsgrundvöll og aðgang að fjármagni
í gegnum bankakerfið.

  • Ljúka þarf fjármögnun nýju bankanna.
  • Semja verður við erlenda lánadrottna.
    • Tryggja þarf fyrirtækjum í útflutningi aðgang að erlendu lánsfé. Eina leiðin til þess
      í dag er að lánardrottnar gömlu bankanna eignist nýju bankana.
      Þetta verður að gera sem fyrst.
  • Aðstoða þarf bankana við nauðsynlegar tengingar og samskipti erlendis.
  • Því miður er það svo að mörg fyrirtæki eru ofurskuldsett eftir eignabólu síðustu ára. Gæta þarf þess að lífvænleg fyrirtæki haldi áfram og staldri sem styst við í eigu bankanna. Koma verður á gagnsæju ferli við sölu þeirra þar sem upplýsingar um kaupverð koma fram.

Við eigum að skoða lausnir og framtíð Íslands í alþjóðlegu samstarfi.

  • Við verðum að leggja áherslu á og rækta samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem er lykill að uppbyggingu Íslands í þeirri stöðu sem við erum í dag.
  • Við verðum að nýta okkur ný tækifæri á borð við fríverslunarsamning Íslands við Kanada og rammasamning Íslands og Bandaríkjanna um samstarf í viðskiptum og fjárfestingum milli landanna sem gæti reynst undanfari fríverslunarsamnings við Bandaríkin.
  • Við verðum að leita þeirrar aðstoðar sem við þurfum til þess að komast á aftur á fæturna.
  • Við verðum að horfast í augu við og skýra stöðu Íslands á okkar helstu mörkuðum og
    eiga þá samræðu þó hún kunni að vera sársaukafull.

 

Bjartari framtíð fyrir heimilin
Við verðum að skilja hvað fór aflaga og hvers vegna og ganga hreint til verks í þeim efnum. Um leið verðum við að reyna að bæta fyrir það sem farið hefur úrskeiðis og sjá til þess að einstaklingar, fjölskyldur og fyrirtæki eigi bjarta framtíð á Íslandi.

  • Það er frumskilyrði og lykillinn að lífsgæðum að tryggja áframhaldandi atvinnu á Íslandi. Það getur Alþingi gert með stuðningi við sveitarfélögin og með því að styðja einstök verkefni. Í Reykjavíkmá t.d. nefna framkvæmdir við nýtt háskólaskjúkrahús og fjölmörg nauðsynleg viðhaldsverkefni.
  • Byggja verður upp atvinnulífið samhliða því að heimilunum er hjálpað. Það er grundvöllur þess að aðgerðir sem farið verður í fyrir heimilin í landinu skili árangri.
  • Afnema verður verðtryggingu lána, auka vaxtabætur og afnema uppgreiðslugjöld. (Þetta getur hvatt fólk til að nota sparnað til niðurgreiðslu lána.)
  • Þegar fyrirtæki veita starfsfólki laun í formi hlutabréfa á að fresta greiðslu skatts þar til bréfin eru seld.
  • Bjóða þarf fjölskyldum í landinu fjölbreytt úrræði til að mæta skuldaaukningu og tekjuskerðingu sem blasir við mörgum þeirra.

    Sjálfstæðisstefnan
    Mörg verkefni bíða við  endurreisn íslensk efnahagslífs. Mitt leiðarljós sem forystumanns Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík er sjálfstæðisstefnan og grasrótin, fólkið. Ég vil nýta þann mikla mannauð sem er í flokknum, ná betur til fleiri flokksmanna og styrkja tengslin, t.d. við launþegasamtök. Gera þarf flokksmanninn virkari í störfum og stefnumótun innan flokksins og lít ég þá m.a. til þeirra möguleika sem felast í nýrri samskiptatækni. Í öllum störfum er brýnt að sýna ráðvendni og gagnsæi og virða það grundvallarviðhorf að frelsi fylgir ábyrgð. Verkefni okkar í Sjálfstæðisflokknum er að setja öll mál á dagskrá, ræða þau og vinna að lausn þeirra með þjóðinni. Á komandi landsfundi þurfum við að ákveða að kosið verði um aðild að Evrópusambandinu í kjölfar könnunarviðræðna. Þannig sýnum við fólkinu í landinu virðingu og traust. Við þurfum að leggja fram peningamálastefnu sem skapar stöðugleika í þjóðfélaginu. Við þurfum að byggja upp atvinnulífið með öflugri mennta- og nýsköpnarstefnu þar sem stutt er við bakið á unga fólkinu í landinu. Sjálfstæðistefnan setur fólkið í landinu í fyrsta sæti og hefur alltaf unnið undir kjörorðunum stétt með stétt. Þess vegna er mikilvægt að við komum atvinnulífinu til aðstoðar á þessum erfiðum tímum með því að fara strax í mannfrek verkefni sem eru þjóðhagslega hagkvæm. Þar má t.d. nefna tónlistarhúsið, háskólasjúkrahús,  viðhaldsverkefni og önnur mannfrek verkefni sem nauðsynlegt er að ráðast í.

    Ég hef aldrei hrifist af hugmyndum um hækkun skatta til að auka tekjur ríkisins. Hafi einhvern lærdóm mátt draga af síðastliðnum 20 árum þá er hann sá að hækkun skatta minnkar skatttekjur þjóðarinnar. Sú formúla að auka útgjöld og vonast til þess að tekjur aukist með auknum skattbyrðum gengur ekki upp. Hærri skattar draga úr hvata atvinnulífsins. Um þetta eru sjálfstæðismenn sammála og ef einhvern tíma var þörf á að halda þessum sannindum á lofti þá er nú nauðsyn. Ég treysti mér vel í það verkefni að sporna gegn frekari álögum á fólkið í landinu í formi skattahækkana. Fái ég til þess stuðning mun ég ekki bregðast. Mitt markmið er að afla sjálfstæðisstefnunni fylgis á ný og vinna að bættum hag Reykvíkinga sem fyrsti þingmaður þeirra.

Leave a Reply

Theme by Anders Norén