Helstu áherslumál

Pdf-útgáfu með þessum áherslumálum má nálgast hér

Guðlaugur Þór Þórðarson er fæddur í Reykjavík 19. desember árið 1967. Guðlaugur Þór er kvæntur Ágústu Johnson framkvæmdastjóra og líkamsræktarfrömuði og eiga þau saman tvö börn en Ágústa á tvö börn frá fyrra hjónabandi.

Guðlaugur Þór hefur víðtæka reynslu af félagsmálum, sveitarstjórnarmálum, sem alþingismaður og ráðherra sem og úr atvinnulífi kallar á að hann skipi annað forystusæti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir alþingiskosningarnar vorið 2013.

Það má með sanni segja að Guðlaugur Þór sé öflugur þingmaður og skarpur stjórnarandstæðingur. Hann hefur af mikilli elju haldið uppi beittri gagnrýni á ríkisstjórnina í mörgum málum og unnið ötullega að málefnum kjósenda sinna í Reykjavík, enda með mikla reynslu af borgarmálum. Guðlaugur Þór hefur lagt megináherslu á málefni fyrirtækja og heimila með því að beina sjónum að skuldamálum þeirra og starfsháttum banka almennt. Hann hefur jafnframt vakið athygli á því hvernig Reykjavík og höfuðborgarsvæðið er hlunnfarið í framlögum til vegamála og hvernig sífellt er sótt að verslun í Reykjavík, sem er ákaflega mikilvæg atvinnulífi höfuðborgarinnar.

Guðlaugur Þór hefur góða þingreynslu að baki og hefur verið atkvæðamikill stjórnarþingmaður og ráðherra. Hann settist á alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn árið 2003 og hefur átt aðkomu að fjölda þingmála og setið í fjölmörgum nefndum. Guðlaugur Þór er jafnframt eini þátttakandinn í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík sem hefur starfað sem ráðherra. Hann var heilbrigðisráðherra á árabilinu 2007-2009 og hefur sinnt þeim málaflokki af miklum áhuga síðan. Guðlaugur Þór lét mjög til sín taka sem heilbrigðisráðherra og hrinti af stað veigamiklum umbótum sem skiluðu miklum sparnaði fyrir heilbrigðiskerfið, stuðluðu að markvissari stjórnun og voru jafnframt unnar í góðu samstarfi við heilbrigðisstéttirnar. Á tíma Guðlaugs Þórs í heilbrigðisráðuneytinu voru afköst aukin, biðlistar styttir og sérstök áhersla lögð á forvarnir.

Guðlaugur Þór er mikilvirkur félagsmálamaður og á að baki farsælan feril í atvinnulífinu. Guðlaugur Þór hefur mikla reynslu af sveitarstjórnarmálum en hann var kjörinn í borgarstjórn Reykjavíkur fyrir Sjálfstæðisflokkinn árið 1998 og var borgarfulltrúi í átta ár. Á þeim tíma starfaði hann í ýmsum ráðum og stjórnum á vegum borgarinnar og var og lét mikið að sér kveða í þeim störfum.

Frumkvæði og árangur hafa einkennt störf Guðlaugs Þórs fyrir sjálfstæðismenn og því er mikilvægt að tryggja honum forystusæti í prófkjörinu 24. nóvember.

Guðlaugur Þór …

• Hefur mjög látið sig húsnæðismál og skuldavanda heimila varða og lagt fram leiðir til lausnar. Guðlaugur Þór vill að fólki verði hjálpað að eignast í húsnæði sínu frekar en það sé hvatt til að skulda.

• Hefur staðið vörð um hagsmuni heimila og fyrirtækja í glímu þeirra við ríkisstjórnina og bankana. Hann setti upp lánareikni á heimasíðu sinni eftir að ríkisstjórnin samþykkti Árna Páls lögin til höfuðs heimilum og fyrirtækjum svo hægt væri að endurreikna lán á réttmætum forsendum. Eftir að hæstiréttur dæmdi útreikninga sem byggðu á þeim lögum ólögmæta fékk Guðlaugur Þór því framgengt á alþingi að lánareiknir yrði settur upp á heimasíðu Umboðsmanns skuldara og vottaður af Ríkisendurskoðun.

• Hefur lagt áherslu á að atvinnulífinu yrði komið af stað með lækkun skatta og arðbærum fjárfestingum. Það er forgangsmál að fjölga atvinnutækifærum og auka verðmæti. Það verður einungis gert með því að veita einstaklingum frelsi til athafna.

• Lagði sem heilbrigðisráðherra mikla áherslu á málefni aldraðra. Þörfin eftir þjónustu við aldraða mun aukast mjög hratt á næstu árum. Mikilvægt er að þjónusta heilbrigðiskerfisins sé miðuð út frá forsendum notenda.

• Vill að skattkerfi ríkisins verði einfaldað, skattar lækkaðir og fátæktargildrum útrýmt, s.s. af völdum tekjutenginga og eignarskatts sem beinist sérstaklega gegn eldra fólki.

• Hefur talað máli verslunar í landinu en hún er ákaflega mikilvæg atvinnugrein í höfuðborginni. Hann vill að mótuð verði viðskiptastefna sem hafi að markmiði að jafna samkeppnisstöðu innlendrar verslunar gagnvart erlendri, lækka tolla og vörugjöld á vörur og þannig lækka vöruverð til hagsbóta fyrir neytendur. Aðeins þeir sem hafa efni á að ferðast erlendis geta keypt vörur á lægra verði og því eru skattar sem lagðir eru á vörur fátæktarskattar.

• Hefur varað við hættunni af ,,snjóhengjunni” svo kallaðri. Hann hefur sagt að minnsta áhættan fyrir íslenskan almenning sé að setja gömlu bankana í þrot og greiða eignirnar út í íslenskum krónum.

• Hefur hefur beint sjónum sínum að umferðaröryggi á landinu. Stærstur hluti alvarlegra umferðarslysa er í Reykjavík. Samt sem áður á ekki að fara í neinar vegaframkvæmdir í Reykjavík á næstu 10 árum. Það er óásættanlegt.

Theme by Anders Norén