Gleðilega Þjóðhátið

Síðast þegar ég stóð á sviði í hér í bænum á 17. júní var ég ekki gamall. Lék í leikriti sem leikstýrt var af Freyju Bjarnadóttur. Freyju, Lúllu eða Töntu þarf ekki að kynna fyrir ykkur sem hana þekktu. Einstök kona sem setti svip sinn á bæinn og var virt af verðleikum. Á þeim tíma hélt ég að það væri fullkomlega eðlilegt og sjálfsagt að Freyja legði á sig mikla vinnu á sig til að halda utan um viðburði sem þann, sem ég var svo lánsamur að fá að taka þátt í. En það var auðvitað ekki sjálfsagt, samt sem áður gerði hún það í áratugi og hafði mikil og góð áhrif á börn og ungmenni í Borgarnesi.

Freyja er gott dæmi um að einstaklingar hafa áhrif. Einstaklingar breyta umhverfi sínu og bæta samfélög. Við stöndum öll í þakkarskuld við alla þá einstaklinga sem að leggja fram óeigingjarnt starf – oft svo árum skiptir – til að gera samfélag okkar að betri stað til að lifa í.

Íslenska tilraunin

Í ár eru 70 ár síðan að íslenska lýðveldið var stofnað. Það er eðlilegt að við þessi tímamót horfum við til baka og veltum því fyrir okkur hvernig tókst til með íslensku tilrauninina. Ég segi tilraun því svo sannarlega var það tilraun að þjóð sem taldi 130 þúsund manns stofnuðu lýðveldi. Minnsta sjálfstæða þjóð heims, langfámennasta af þjóðum Sameinuðu þjóðanna.

Á þessum tíma hefur þjóðin sameiginlega staðið fyrir og gengið í gegnum miklar breytingar, sem hafa haft áhrif á líf okkar með ýmsum hætti. Flestar þessara breytinga eru afskaplega jákvæðar – þeim fylgja tækifæri, frelsi og jafnrétti, sem við bjuggum ekki við áður. Á örfáum áratugum hefur íslensk þjóð byggt upp húsakost, samgöngur, innanlands og á milli okkar og annarra landa, iðnað, sjávarútveg, heilbrigðis- og menntakerfi sem stenst samanburð við flest þau ríki sem við viljum bera okkur saman við. Vissulega er þessi árangur ekki einsdæmi í veröldinni en á sama tíma er það staðreynd að í dag telst Ísland til þeirra landa heims sem búa við hvað best lífskjör.
Það er því óhætt að fullyrða að tilraunin hafi tekist vel. Og svo sannarlega getum við verið stolt af þessum árangri;Að fara frá því að vera fátækasta þjóð Vestur Evrópu um aldamótin 1900 yfir í að vera menningarríki, velferðarþjóðfélag.

Metnaður, bjartsýni og kraftur

Það er áhugavert að skoða umræður frá þeim tíma sem við Íslendingar fengum sjálfstæði. Það var augljóst að meðal þjóðarinnar ríkti, metnaður, bjartsýni og kraftur. Metnaður til að standa sig sem sjálfstæð þjóð. Bjartsýni vegna þess að með Sjálfstæði þjóðarinnar fólst uppspretta tækifæra, tækifæra hugans, við vorum sjálfstæð eftir langa baráttu, og með dugnaði, útsjónarsemi og elju tókst íslendingum að byggja upp lýðveldi. Fámennasta lýðveldi heims! Það er afrek.

Margt hefur breyst síðan þá og það er hverjum manni ljóst að þjóðin er ekki eins einsleit og hún var 1944. Samkvæmt fræðilegum skilgreiningum á þjóð er það hópur fólks sem að talar sama tungumál, er með sömu menningu, sögu og trú. Íslenska þjóðin hefur verið notuð um dæmi um þær fáu þjóðir sem uppfylltu nær fullkomlega þessa skilgreiningu.
Við erum ekki jafn einsleit og við vorum árið 1944 en á meðan að við sameinumst um trú á frelsi, ábyrgð umburðarlyndi og trú á lög og rétt þá verðum við sameinuð sem þjóð og okkur mun farnast vel.

Það er ekki sjálfgefið að okkur mönnunum farnist vel. Mannkynssagan geymir ógrynni dæma um það. Mannkyninu hefur farnast betur á síðari tímum. Það hafa aldrei fleiri lifað á jörðinni, sem má ekki síst rekja til aukinnar þekkingar og betri heilbrigðisþjónustu, lífaldur hefur hækkað mikið og velmegun aukist. En gæðunum er misskipt, en býr minnihluti mannskyns við almenn mannréttindi og stór hluti við kröpp kjör, fátækt og hungur. Það skal heldur ekki gleymast að auðvelt hefur verið fyrir samfélög manna að breyta velsæld í vesæld, frið í stríð og auði í fátækt.

Margir fórnuðu lífinu fyrir okkur

Það hefur langt frá því verið sjálfgefið að við íslendingar höfum bætt lífskjör okkar eða aðstæður. Margir telja að það hafi allt komið til vegna utanaðkomandi aðstæðna, bætt lífskjör hafi einhvern veginn dottið í fangið á okkur. Því er til að svara að til eru staðir á jarðarkringlunni sem að hafa mun betri aðstæður til að ná árangri en við. Gott dæmi um það er eitt gjöfulegsta svæði jarðar, Kalifornía sem að hefur ógrynni af auðlindum, t.d. góðmálmum, jarðhita, olíu og gasi, fyrir utan öll önnur gæði. Það fylki Bandaríkjanna er samt sem áður í mjög erfiðri fjárhagslegri stöðu, sem ætti að vera óhugsandi. Á sama tíma eru sum ríki heims velstæð á alla mælikvarða án þess að eiga ekkert nema hugvitið sem er að sjálfsögðu mesta auðlindin.

En ýmsir hafa fórnað miklu til að bæta lífskjör þjóðarinnar og er furðu lítið um það rætt. Allir vita að í seinni heimstyrjöldinni skapaðist okkur mikill auður. Ekki síst vegna þess að þá opnuðust markaðir fyrir okkar sjávarútveg á Bretlandi. Minna er rætt um þá hundruði sjómanna sem misstu líf sitt við að koma vörum til Breta á þessum stríðstímum. Reyndar er hlutfallslegur fjöldi íslendinga sem féll svipaður fjölda Bandaríkjamanna sem féllu í stríðinu.

En við skulum ekki gleyma því að velmegun okkar byggist á viðskiptum og góðum samskiptum við aðrar þjóðir. Ef við íslendingar ættum ekki aðgang að mörkuðum erlendra ríkja, ættum við enga von. Ef við íslendingar ættum ekki aðgang að hugmyndum og þekkingu annara þjóða ættum við heldur enga von. Einangrun og sjálfsþurftarbúskapur hefur ekki gert neina þjóð ríka eða hamingjusama, ekki einu sinni stærstu þjóðir heims. Við eigum að vera opin, fjölbreytni er af hinu góða og henni ber að fagna.

Fósturland og þjóðerni eru ekki sérstök guðleg gjöf

Allur samanburður á milli þjóða heims sýnir og sannar að í grunninn erum öll eins. Hugmyndir um yfirburði þjóða, kynþátta eða þjóðflokka standast enga skoðun. Fyrsti ráðherrann okkar Hannes Hafstein orðaði þetta vel í fyrirlestri sem að hann hélt seint á nítjándu öld en hann gagnrýndi þær hugmyndir sem þá var haldið á lofti um að þjóðernið væri ofar öllu, ekkert frelsi væri nema þjóðfrelsið, þjóðin og fósturlandið væri hið æðsta og öllu fórnandi fyrir það.
Hannes sagði; ,,Því hefur verið slegið föstu gegnum blóð og baráttu að allir menn eru menn. Það er tímans krafa hver maður geti orðið sem frjálsastur, mestur og bestur, með því að nota sinn eigin kraft, því að sú frægð að tilheyra fornkunnri þjóð er létt fyrir svangan maga. Menn vita nú að mennirnir lifa ekki og vinna ekki til þess að vera þjóð heldur er þjóðin til vegna þess að svo og svo margir menn, sem tala sömu tungu, lifa og vinna. Hún er sterk þjóð, aðeins að því skapi, sem einstaklingarnir í henni geta náð að verða sem frjálsastir, mestir og bestir í andlegu, líkamlegu og siðferðislegu tilliti. Fósturland og þjóðerni eru ekki sérstök guðleg gjöf því hver sem fæðist í heiminn verður að fæðast í einhverju landi og það land sem hann af hendingu fæðist í og er að jafnaði hans fósturland og af því fær hann sjálfkrafa eða nauðugur þann stimpil sem kallast þjóðerni og sem bindur hann alla ævi ýmsum böndum við fósturlandið.“

Þrátt fyrir að vera yfir 100 ára gamall þá hefur þessi texti staðist tímans tönn en það mætti bæta við að bönd viðkomandi einstaklings eru ekki eingöngu þvinguð heldur líka val þeirra sem flytja á milli landa.

Þjóðerniskennd er í eðli sínu góð

Þjóðerniskennd er í eðli sínu góð en eins og flest annað er hægt að misnota hana. Það er jákvætt að við séum stolt af landinu okkar og viljum gera vel fyrir land og þjóð. Það hvetur okkur til góðra verka, ýtir undir samstöðu og samhjálp. Gerir það að verkum að fólk er tilbúið að leggja mikið á sig í þágu fólks sem að þekkir jafnvel ekki neitt. En að trúa á meðfædda yfirburði þjóða eða kynþátta, er í besta falli kjánaskapur og mun alltaf leiða til mistaka.
Aðalatriðið er að við íslendingar erum okkar eigin gæfu smiðir. Velgengni okkar veltur á okkur sjálfum. Verkefnið er ekki flókið en það er eilíft. Það vinnst aldrei fullnaðarsigur.

Frelsi, ábyrgð og umburðarlyndi

En ef við höfum í heiðri frelsi, ábyrgð, umburðalyndi, virðingu fyrir lögum og rétti, virðum grundvallarreglur réttarríksins þá mun okkur vel farnast.

Við eigum að tileinka okkur gagnrýna hugsun, við eigum að leifa okkur að hafa efasemdir, sérstaklega um hluti sem almenn samstaða er um. Ef við berjum niður gagnrýnisraddir þegar þær koma fram vegna þess að þær eru á skjön við almenn viðhorf þá er voðinn vís.
Að sama skapi verður umræða að vera málefnaleg og byggð á staðreyndum. Það hljómar sem fullkomlega sjálfsagt mál en er það svo sannarlega ekki. Því miður er umræðuhefðinni ábótavant. Okkur hættir til að ræða aukaatriði og ræða fyrst og fremst þá einstaklinga sem taka þátt í umræðunni í stað þess að ræða hvað þeir hafa fram að færa.

Nýlegt dæmi er umræðan um Evrópumálin. Bæði Ríkisstjórnin sem og hagsmunaaðilar sem vilhallir eru Evrópusambandinu settu tugi milljóna í skýrslugerð. Fjöldi sérfræðinga skrifuðu ýtarlegar greiningar á því hvað fælist í aðild Íslands að ESB og tekin voru viðtöl við fjölda einstaklinga sem þekkja til innan sambandsins. Hefur farið fram efnisleg umræða um þessar skýrslur? Svarið er nei, þrátt fyrir mikla umræðu þá erum við ekki enn komin þangað. Hvað sem okkur finnst um það deilmál þá hlýtur það að vera hagur allra að ræða efni máls en ekki umbúðir.

Umburðarlyndið er ekki auðvelt

Umburðarlyndi er ekki alltaf auðvelt. Af hverju? Vegna þess að umburðarlyndi krefst þess að sýna þeim umburðarlyndi sem að við erum ósammála, fara jafnvel í taugarnar á okkur. Það er ekkert mál að sýna þeim umburðarlyndi sem standa okkur næst eða hafa sömu lífsskoðanir og við. Það eru hinir sem við verðum að sýna umburðarlyndi.
Ég velti því fyrir mér hvort að umræða hér á okkar góða landi einkennist oft á tíðum af litlu umburðarlyndi í nafni umburðarlyndis.

Mannréttindi eru algild

Við megum aldrei taka frelsi og mannréttindum sem gefnu. Mannréttindi eru algild. Þau eiga alltaf við, ekki bara hér á Íslandi heldur alls staðar í heiminum. Það eru ekki rök að það sé hefð fyrir því að á viðkomandi stað hafi alltaf verið brotið á viðkomandi einstaklingum eða hópum og þess vegna eigi að halda því áfram.

Við íslendingar eigum að vera í fararbroddi í baráttu fyrir mannréttindum, bæði hér á landi sem og á alþjóðavettvangi. Það þýðir m.a. að við eigum að taka gagnrýni á mannréttindabrot hér heima alvarlega. Ef reglur réttarríkisins eru brotnar þá erum við í hættu stödd, og þá breytir engu hver brotaþolinn er. Mannréttindi eru ekki bara fyrir þá sem okkur líkar vel við eða eru vinsælir á hverjum tíma. Mannréttindi eru líka fyrir hina og við skulum hafa það hugfast að brot á mannréttindum gagnvart þeim sem margir, kannski allir eru sammála um njóti ekki samúðar, mun verða fordæmi fyrir brotum gagnvart öðrum líka.

Ábyrgð forsenda framfara

Við viljum vera efnahagslega sjálfstæð. Til að halda því sjálfstæði og losna út úr gjaldeyrishöftum verðum við að sýna ábyrgð í opinberum fjármálum. Ábyrgð er forsenda framfara á Íslandi.
Það er reynsla allra þeirra þjóða sem að við viljum bera okkur saman við. Við þurfum aga í opinber fjármál, við verðum að greiða niður skuldir og langtímasjónarmið verða að vera ríkjandi í fjármálum ríkis og sveitarfélaga.

Agi og ráðdeild er ekki nóg og þar var rétt hjá hinum mikla forystumanni, sem var sonur dansks innflytjenda og barðist alla tíð fyrir sjálfstæði landins, Ólafi Thors fyrrverandi forsætisráðherra sem fæddist hér Borgarnesi nánar tiltekið að Brákarbraut 11 árið 1892, að með sparsemi og nægjusemi einni saman mun íslendingar aldrei ná settu marki heldur með bjartsýni, stórhug og atorku.

Einstaklingurinn er mikilvægari á Íslandi

Í upphafi máls míns tók ég dæmi um einstakling sem við mörg þekktum og hvaða áhrif hún hafði á sitt samfélag. Hún var ekki þjóðþekkt en hafði án nokkurs vafa meiri áhrif en flestir þjóðþekktir einstaklingar. Gott samfélag snýst ekki alltaf um stóra hluti, stóra viðburði, eða stórar ákvarðanir heldur miklu frekar fjölda smærri hluta, atburða og gerða sem aldrei fara í sögubækur og er sjaldnast þakkað fyrir.
Einstaklingar skipta alltaf máli, en hver og einn einstaklingur er enn mikilvægari í smærri samfélögum, eins og t.d. hér í Borgarbyggð eða öllu heldur hér á Íslandi. Því svo sannarlega erum við íslendingar fáir í samanburði við aðrar þjóðir en það kemur ekki í veg fyrir við getum verið stór í huga og anda með sama hætti og þeir sem börðust fyrir fullu frelsi þjóðarinnar og sáu draum sinn rætast á þingvöllum fyrir 70 árum.

17.júni 2014 í Borgarnesi

facebooktwittergoogle_plusredditpinterestlinkedinmailfacebooktwittergoogle_plusredditpinterestlinkedinmail
facebooktwittergoogle_pluslinkedinrssyoutubefacebooktwittergoogle_pluslinkedinrssyoutube