Stærsta úrlausnarefnið í íslensku efnahagslífi í í dag er lausn á svonefndum snjóhengjuvanda. Snjóhengjan er að minnsta kosti 100% af VLF. Stærsti einstaki hlutinn er þrotabú gömlu bankanna og nemur um þriðjungi vandans.
Erlendar skuldir þrotabúanna nema um 2300 milljörðum er því fjórum sinnum stærri en Icesave skuldin á sínum tíma. Framtíðarhagsmunir íslenskrar þjóðar er að veði og íslensks stjórnvöld hafa því ríkar heimildir til inngripa með það að markmiði að leysa málið.

Uppgjör á þrotabúum föllnu bankanna er eðli málsins samkvæmt lykill að lausn þessara mála.

Þrotabú Kaupþings, Glitnis og gamla Landsabankans eru meðal stærstu fyrirtækja á Íslandi í dag ef miðað er við eignir þeirra, hvort sem er höfuðstól eða markaðsvirði. Tilvera þeirra veldur miklum kostnaði fyrir hið opinbera (eftirlitsaðila, löggjafann og framkvæmdavaldið) og endanlegt uppgjör þeirra og útgreiðslur krafna – sérstaklega til erlendra aðila – getur valdið stökkbreytingu á gengi krónunnar. Þau eru sem sagt ógn við almanna hagsmuni. Þrátt fyrir þetta greiða þessi fyrirtæki lítil opinber gjöld og skatta

Það er sjálfsagt og eðlilegt að þessi fyrirtæki greiði skatta og geta þeir verið í formi skatta á útgreiðslur eða sérstakur skattur á skuldir þeirra. Íslensk fjármálafyrirtæki greiða sérstakan skatt á skuldir sem nemur 0.041%. Í lögunum sem settu þennan skatt á (nr. 155/2010) voru fjármálafyrirtæki í slitameðferð á óútskýranlegan hátt undanþegin honum. Í lögum nr. 73/2011 var lagður á tímabundinn viðbótarskattur sem nemur 0,0875% af skuldum fjármálafyrirtækja. Bankarnir greiddu því 0.1285% skatt af skuldum sínum og aflaði þessi skattur ríkinu um 3 milljörðum á þessu ári.

Ef þrotabúin greiddu sambærilegan skatt, þ.e. 0.1285% á höfuðstól skulda (en höfuðstóll bara erlendra skulda þeirra var tæpir 10.000 milljarðar í árslok, samkvæmt tölum Seðlabankans) aflaði slíkur skattur tæpum 13 milljörðum á ári.

Útgreiðslur til erlendra kröfuhafa munu nema sem 2500 milljörðum miðað við núverandi verðmat og gengi. Útgreiðslur setja gríðarlegan þrýsting á gjaldmiðillinn. Þær nema fimmföldum gjaldeyrisforða Seðlabankans eru þar af leiðandi ógn við fjármálastöðugleika. 10% skattur á útgreiðslur mundi afla ríkinu 250 milljörðum á því tímabili sem útgreiðslurnar eiga sér stað.

Ekki verður séð að slík skattlagning sé í andstöðu við alþjóða lög og samninga. Í skýrslu sinni um Ísland í nóvember í fyrra tók Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn undir slíkan útgönguskatt. . Einnig má nefna að á Kýpur er verið að tala um 25% skatt á útgreiðslur á innistæður í starfandi bönkum þannig að ekki er hægt að halda því fram að við værum að fara aðrar leiðir en félagar okkar í ESB.

Skattar sem þessir eru ekki bara réttlátir út frá hagsmunum skattgreiðenda á Íslandi heldur eru þeir líklegir til að hvetja til skynamlegar og skjótrar úrlausnar í þessu risamáli. Erlendir kröfuhafar bankanna tapa einnig peningum eftir því sem lengri tíma tekur að greiða út úr þrotabúnum . Ef stjórnvöld halda rétt á spilunum má búast við því að gjaldeyrishöftin geti verið afnumin á næstu 3-4 árum og án verulegs tjóns fyrir íslenskan almenning.

Birtist 12.apríl 2013 í Morgunblaðinu.

facebooktwittergoogle_plusredditpinterestlinkedinmailfacebooktwittergoogle_plusredditpinterestlinkedinmail
facebooktwittergoogle_pluslinkedinrssyoutubefacebooktwittergoogle_pluslinkedinrssyoutube