Mikil umræða hefur verið um Kastljósþátt sem sýndur var um stöðuna í mjólkuriðnaði. Hann var athyglisverður fyrir margra hluta sakir en staðreyndin er að umræðan sem hefur með hléum vaknað undanfarna áratugi er á sama stað og fyrir 40-50 árum.

Sprotar hafa komið fram í mjólkuriðnaði frá því að Thor Jensen fór af stað með Korpúlfsstaði en ríkur vilji hefur verið hjá ráðandi öflum að hafa kerfið miðstýrt og helst á einni hendi. Áhugavert var að heyra son þrautseiga frumkvöðulsins Hafsteins Kristinssonar fara yfir sögu fyrirtækisins og föðurs síns. Ég held að allir geti verið sammála um að það var gott fyrir neytendur, bændur og þjóðina alla að fyrirtækið hafi lifað af og veitt samkeppni á þeim markaði sem að það starfar á.

Það er kjarni máls. Samkeppnin er góð og við eigum að stuðla að samkeppni og ýta undir nýsköpun í landbúnaðarframleiðslu. Það er ekki einungis gott fyrir landbúnaðinn og neytendur heldur mun t.d. undirstöðuatvinnuvegurinn; ferðaþjónusta njóta góðs af því. Ferðamenn sækja í innlenda framleiðslu á hverjum stað.

Við íslendingar erum það lánsamir að við framleiðum góð matvæli. Heilnæma vöru að mestu lausa við aukaefni. Í því felst okkar styrkur. Við verðum aldrei með ódýrustu matvæli í heimi en við erum með gæði sem eru sambærileg við það besta. Í þessu felast gríðarleg tækifæri.

Besta leiðin til að nýta tækifærin er að koma á samkeppni á innlendum markaði. Það á að vera markmið stjórnvalda að stuðla að slíkri samkeppni. Núverandi ríkisstjórn hefur stigið skref í frjálsræðisátt með því að afnema verðmiðlun á mjólk. Ráðherra landbúnaðarmála tók vel í að afnema mjólkurkvótakerfið þegar ég spurði hann að því í þinginu. En betur má ef duga skal.

Nú er tækifæri, landbúnaðarráðherra hefur boðað endurskoðun á núverandi fyrirkomulagi. Mikilvægt er að ganga rösklega til verks. Ef ekki tekst að koma á samkeppni á þessu sviði munu tækifæri glatast.

Pressan 8. október 2014

facebooktwittergoogle_plusredditpinterestlinkedinmailfacebooktwittergoogle_plusredditpinterestlinkedinmail
facebooktwittergoogle_pluslinkedinrssyoutubefacebooktwittergoogle_pluslinkedinrssyoutube