Frá því að ég man eftir mér hafa íslenskir sósíalistar verið með barnalegar samsæriskenningar um Sjálfstæðisflokkinn. Þær eru vanalega einhvern veginn svona; gamli Sjálfstæðisflokkurinn er dauður núna eru komnir aðilar sem vilja bara græða og níðast á fátæku fólki.

Íslenskir sósíalistar hafa á öllum tímum skrifað og talað svona um Sjálfstæðisflokkinn. Auðvelt er að skoða gömul eintök af Þjóðviljanum eða fletta Þingtíðindum ef menn vilja rifja það upp.

Einn helsti hugmyndafræðingur íslenskra vinstri manna, prófessor Stefán Ólafsson hefur verið duglegur við að halda þessu á lofti og skrifaði nýlega enn eina greinina á Eyjuna um hvað forystumenn í Sjálfstæðisflokknum eru vont fólk og taldi þá; ,,villutrúar og vilja bara græða“.

Hann fullyrti að Sjálfstæðismenn vildu grafa undan opinbera samtryggingakerfinu og koma á bandarísku kerfi í heilbrigðismálum og vilja bara einkarekstur. Einhver kynni að segja að slíkur málflutningur væri svo galinn að það skyldi ekki taka hann alvarlega og það er mikið til í því en ekki verður fram hjá því horft að oft er vitnað í manninn í fjölmiðlum eins og um sé að ræða faglegt mat fræðimanns.

Einkavæðing VG og Samfylkingarinnar

En að kjarna máls. Er Stefán og e.t.v. vinstrimenn almennt, andsnúnir einkarekstri í heilbrigðiskerfinu?
Af hverju samdi þá hreina vinstristjórnin við einkaaðila? T.d um sjúkrahótel og tannlækningar?
Stefán Ólafsson var innsti koppur í búri hjá þeirri ríkisstjórn og var m.a. í sérverkefnum fyrir hana í heilbrigðismálum.
Ef notum orðalag vinstrimanna þá stóð ríkisstjórn VG og Samfylkingarinnar, ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms að stærstu ,,einkavæðingu” í heilbrigðisþjónustu á Íslandi.

Og er það virkilega svo að prófessorinn þekki ekki muninn á bandarísku heilbrigðiskerfi og því skandinavíska. Það eitt og sér hlýtur að teljast mjög alvarlegt mál.

Eigum við að banna einkarekstur?

Er hann á móti einkarekstri í heilbrigðismálum? Á ríkið að taka yfir rekstur einkaaðila? Það myndi þýða að eftirfarandi rekstrareiningum yrði lokað:

SÁÁ
Reykjalundur
Grund
Hrafnista
Sóltún (reyndar nær öll hjúkrunarheimili landsins)
Tannlæknastofur
Sérfræðilæknastofur
Heilsugæsla Salahverfis
Sjálfstæðar heimilislækningastofur
Krabbameinsfélagið
Rauði kross Íslands
Hjartavernd
o.s.frv.

Með öðrum orðum erum við að tala um að taka upp fyrirkomulag sem hvergi þekkist í þeim löndum sem við berum okkur saman við.

Trúir einhver því að heilbrigðsþjónustan á Íslandi verði betri ef við bönnum einkarekstur?
Að veita góða heilbrigðisþjónstu er eilífðarverkefni. Við Sjálfstæðismenn höfum forgangsraðað í þágu þeirrar þjónustu, það sama verður ekki sagt um íslenska vinstrimenn.

Ríkisstjórnin hefur stóraukið framlög til heilbrigðismála

Ef við ætlum að ná betri árangri verðum umræðan að vera byggð á staðreyndum og án öfga. Það er mikilvægt að nýta reynslu nágrannaþjóða okkar til að bæta núverandi þjónustu.

Norðurlandaþjóðirnar eru með blandað kerfi og eru óhræddir við að nýta kosti einkareksturs, horfum til þeirra og höfnum þessum öfgasjónarmiðum.

facebooktwittergoogle_plusredditpinterestlinkedinmailfacebooktwittergoogle_plusredditpinterestlinkedinmail
facebooktwittergoogle_pluslinkedinrssyoutubefacebooktwittergoogle_pluslinkedinrssyoutube