Myndin sem blasir við er í senn einföld og dökk: Ríkið er rekið á yfirdætti, gengið er á framtíðina með auknum skuldum og áætlanir um að ná endum saman hafa ekki gengið eftir. Að óbreyttu munu mikilvægi innviðir þjóðfélagsins bresta – heilbirgðiskerfið, menntakerfið, löggæsla og samgöngur.
Haustið 2008 var gerð áætlun um frumjöfnuð í ríkisrekstrinum. Áætlunin var unnin í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þar var gengið út frá því að jákvæður jöfnuður næðist árið 2011 og frá og með 2012 væri ríkissjóður í stakk búinn til að greiða niður skuldir en til þess þarf jöfnuðurinn að vera a.m.k. 5%. Þessi áætlun hefur ekki gengið eftir, eins og sést á meðfylgjandi töflu. Á þessu ári er vonast til að frumjöfnuður verði 2%, sem þýðir einfaldlega að enn verður gengið á framtíðina og lífskjör almennings á komandi árum.

Skuldastaðan

Heildarskuldir ríkissjóðs námu 1.913 milljörðum króna í lok 2. ársfjórðungs 2013 sem samsvarar 109,1% af áætlaðri landsframleiðslu ársins. Hrein peningaleg eign ríkissjóðs, þ.e. peningalegar eignir umfram skuldir, var neikvæð um 864 milljarða króna í lok ársfjórðungsins, en það jafngildir 47,5% af landsframleiðslu. Hrein peningaleg eign ríkissjóðs dróst saman um 61 milljarð króna milli 2. ársfjórðungs 2012 og 2013, samkvæmt frétt á vef Hagstofu Íslands.

Myndin er jafnvel enn dekkri þegar haft er í huga að hér eru ríkisábyrgðir og lífeyrisskuldbindingar ekki taldar með.

Forgangsröðun norrænu velferðarstjórnarinnar.

Nýlega kom fram skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um þróun á fjölda ríkisstarfsmanna. Þar kom fram að ársverkum hefur fjölgað um 200 hjá ríkisstarfsmönnum frá árinu 2007. Á sama tíma hefur þeim fækkað um 18 þúsund á almennum markaði. Einnig kom fram að fjölgunin kemur mjög ójafnt niður. Þannig hefur starfsmönnum í undirstofnunum Umhverfisráðuneytisins fjölgað um 130 en fækkað hefur verið um 350 störf á Landspítalanum og um 90 lögreglumenn á þessu tímabili.

Því miður dugar ekki að senda sjúklinga á biðlista til undirstofnana Umhverfisráðuneytisins.

Agaleysi í ríkisrekstri

Við Íslendingar verðum að horfast í augu við þá nöturlegu staðreynd að agaleysi einkennir ríkisreksturinn og að þriðjungur af fjárlagaliðum eru umfram það sem fjárlög heimila. Agaleysi þýðir einfaldlega skuldasöfnun sem almenningur þarf að greiða fyrr eða síðar í formi hærri skatta, lakari þjónustu hins opinbera og verri lífskjörum.

Er hægt að spara?

Við höfum því ekkert val. Við verðum að spara, hagræða og neita okkur um ýmislegt sem okkur langar til að gera. Valkostirnir eru tveir; annars vegar flatur niðurskurður eða hins vegar forgangsröðun og kerfisbreytingar.

Flati niðurskurðurinn leggst jafnt á allt, bæði það sem við getum ekki verið án og líka þess sem við þurfum minna á að halda. Reynslan kennir okkur að árangurinn er lítill og jafnvel enginn til lengri tíma.

Það er hægt að spara með kerfisbreytingum. Dæmi um slíkan sparnað eru breytingar sem Sjálfstæðisflokkurinn beitti sér fyrir og leiddi til milljarða lækkunar lyfjakostnaðar Annað dæmi er sameining skattstofna en þar er haldið uppi sömu þjónustu með minni tilkostnaði.

Framtíðin er björt

Við íslendingar höfum tekist á við stærri verkefni en það sem blasir við okkur nú. Ef við nálgumst verkefnið út frá raunsæi og ábyrgð næst árangur. En tíminn vinnur ekki með okkur. Við getum ekki ýtt vandanum á undan okkur í þeirri von að þetta “reddist eins og venjulega”.

Pistillinn birtist á Pressunni 28.september 2013

facebooktwittergoogle_plusredditpinterestlinkedinmailfacebooktwittergoogle_plusredditpinterestlinkedinmail
facebooktwittergoogle_pluslinkedinrssyoutubefacebooktwittergoogle_pluslinkedinrssyoutube