Jóna Gróa Sigurðardóttir fyrrverandi borgarfulltrúi skrifar í Morgunblaðið 23.11.2012

Við þurfum alþingismann sem lætur hendur standa fram úr ermum og lætur verkin tala. Það er ekki nóg að hafa skýra framtíðarsýn og góðar hugmyndir, það þarf kraft, dugnað og úthald til að koma þeim í framkvæmd. Þar hef ég Guðlaug Þór í huga. Hann er einkar þægilegur og góður í mannlegum samskiptum sem er nauðsynlegt við lausn erfiðra mála. Litlu er áorkað nema í samstarfi við aðra.

Guðlaugur Þór settist á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn árið 2003 og hefur verið falin fjölmörg trúnaðarstörf á vegum Þingsins. Hann hefur m.a. setið í heilbrigðis-,félagsmála-, sjávarútvegs-, umhverfis-, efnahags- og viðskiptanefnd. Hann var heilbrigðisráðherra á árunum 2007-2009 og sýndi af sér mikið frumkvæði og alúð við málaflokkinn.

Hann hrinti af stað veigamiklum umbótum, í góðu samstarfi við heilbrigðisstéttirnar, sem skiluðu miklum sparnaði fyrir heilbrigðiskerfið. Breytingarnar skiluðu þeim árangri að rekstrarhalli spítalans varð 1% árið 2008 samanborið við 5,5% halla árið á undan, þrátt fyrir auknar kröfur og eftirspurn eftir þjónustu. Lyfjakostnaður lækkaði um 1,5 milljarð króna með margvíslegum aðgerðum sem áttu þátt í að lækka lyfjakostnað bæði hjá sjúklingum og ráðuneytinu. Starfsemi Barna-og unglingageðdeildar Landspítala (BUGL) var efld til muna haustið 2007 en þá var framlag til deildarinnar aukið um 150 milljónir króna. Leitað var til stjórnenda og starfsfólks BUGL eftir tillögum til að efla deildina.

Undir lok árs 2008 hafði næstum tekist að útrýma biðlistum sjúklinga LSH sem biðu varanlegrar vistunar. T.d. var stutt við búsetu aldraðra og langveikra í heimahúsum með eflingu heimahjúkrunar og heimaþjónustu ásamt öðrum tilheyrandi úrræðum. Einn af kostum Guðlaugs Þór er að hann er mjög aðgengilegur maður og á gott með að vinna með fólki. Hann er einn af sterkustu forystumönnum Sjálfstæðisflokksins.

Kjósum Guðlaug Þór í 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

facebooktwittergoogle_plusredditpinterestlinkedinmailfacebooktwittergoogle_plusredditpinterestlinkedinmail
facebooktwittergoogle_pluslinkedinrssyoutubefacebooktwittergoogle_pluslinkedinrssyoutube