Ólafur Adolfsson skrifar í Morgunblaðið 17.11.2012: Framundan er einn mikilvægasti kosningavetur sem kjósendur á Íslandi hafa lengi staðið frammi fyrir. Þetta kjörtímabil hefur verið átakatímabil enda hafa stjórnarflokkarnir að mestu eytt tíma sínum í að reyna að koma hinum undarlegustu gæluverkefnum í gegnum Alþingi í stað þess að beina kröftum sínum og þjóðarinnar að því sem helst skiptir máli, atvinnumálum og skuldavanda heimilanna. Eins og talað er á vinstri væng íslenskra stjórnmála þá verður baráttan áfram hörð og mikilvægi þess að Sjálfstæðisflokkurinn verði í forystu á næsta kjörtímabili er hrópandi. Það er því lykilatriði að sjálfstæðismenn velji sitt hæfasta fólk til að standa vaktina á næsta kjörtímabili, velji baráttumanneskjur. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur sýnt það í störfum sínum að hann er duglegasti og skarpasti þingmaðurinn í þingliði sjálfstæðismanna. Ég hef þekkt Guðlaug Þór um árabil og veit að hann er vel til forystu fallinn.

Öflugur heilbrigðisráðherra

Guðlaugur Þór er eini þátttakandinn í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík sem hefur starfað sem ráðherra. Hann var heilbrigðisráðherra á árabilinu 2007-2009 og hefur sinnt þeim málaflokki af miklum áhuga síðan. Guðlaugur Þór lét mjög til sín taka sem heilbrigðisráðherra og hrinti af stað veigamiklum umbótum og breyttum vinnubrögðum sem skiluðu miklum sparnaði fyrir heilbrigðiskerfið. Hann beitti sér fyrir markvissari stjórnun í heilbrigðiskerfinu og fyrir nauðsynlegum breytingum á skipulagi til að ná fram settum markmiðum. Í ráðuneytinu sjálfu og ýmsum undirstofnunum var sviðum og deildum fækkað og þau sameinuð, valdi dreift sem og ábyrgð og kaupendahlutverk hins opinbera styrkt. Guðlaugur Þór vann að þessum breytingum í góðu samstarfi við heilbrigðisstéttirnar og afsannaði þá kenningu vinstri manna að Sjálfstæðisflokkurinn ætti ekki að fara með heilbrigðismálin.

Mikilvægt er að kjósendur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins geri sér góða grein fyrir þeim málum sem Guðlaugur Þór vann að sem heilbrigðisráðherra því þar eru mörg dæmi um raunverulegan árangur sem náðist í mjög erfiðum og krefjandi málaflokki. Í Fréttablaðinu fyrir um ári síðan birtist skoðanakönnun sem sýndi að flestir landsmenn treysta Sjálfstæðisflokknum betur en öðrum flokkum fyrir heilbrigðismálunum. Það er arfleifð Guðlaugs Þórs sem heilbrigðisráðherra. Það er jafnframt ávísun á árangur í komandi kosningum skipi Guðlaugur Þór forystusæti í Reykjavík.

Heiðarlegur og drenglyndur

Sumir kunna að spyrja sig hvað ég, búsettur á Akranesi, sé að skipta mér af prófkjörsmálum í Reykjavík. Svarið er einfalt: Ég hef þekkt Guðlaug Þór allt frá því að við vorum í Menntaskólanum á Akureyri og hef síðan fylgst vel með honum á vettvangi stjórnmálanna. Ég styð Guðlaug Þór til allra góðra verka því ég veit að hann lætur til sín taka og er heiðarlegur og drenglyndur. Í öðru lagi rennur mér blóðið til skyldunnar sem sjálfstæðismaður að tala máli öflugasta frambjóðanda höfuðborgar landsins. Þeir sem skipa forystusæti í Reykjavík munu vera í forystu fyrir Sjálfstæðisflokkinn í komandi kosningum. Þar á Guðlaugur Þór að vera.

Ólafur Adolfsson,
lyfjafræðingur

facebooktwittergoogle_plusredditpinterestlinkedinmailfacebooktwittergoogle_plusredditpinterestlinkedinmail
facebooktwittergoogle_pluslinkedinrssyoutubefacebooktwittergoogle_pluslinkedinrssyoutube