Birgir Gunnlaugsson, varaformaður Fjölnis skrifar í Grafarvogsblaðinu 15.11.2012: Við sem störfum að eflingu æskulýðismála þekkjum vel til loforða stjórnmálamanna og efnda. Allir sem vinna í málaflokknum vilja vel en stundum er erfitt að skilja forgangsröðun verkefna þegar kemur að unga fólkinu okkar og mikilvægi þess að það njóti heilbrigðis og hollra lífshátta.

Frá upphafi hefur Fjölnir búið við skerta aðstöðu til sinna verka. Þrátt fyrir skilning og velvilja eru hundruðir iðkenda án aðstöðu í hverfinu og iðka því sína íþrótt við afar vafasamar aðstæður og vart bjóðandi. Fjölnir sem hefur verið stærsta og fjölmennasta íþróttafélag landsins um árabil hefur þannig ár eftir ár mátt sitja á hakanum með uppbyggingu íþróttamannvirkja. Hvergi er neyðin meiri eða þörfin.

Borgaryfirvöld töldu sig tilneydd í kjölfar hrunsins að falla frá nýgerðum samningi við Fjölni um uppbyggingu í hverfinu. Samningur sem hafði verið 10 ár í smíðum með tilheyrandi fundarsetu sjálfboðaliða á vinnutíma og endalausum snúningum embættis og stjórnmálamanna. Þessi samningur gerði ráð fyrir fimleikahúsi, húsi fyrir bardagaíþróttir, sérstöku húsi fyrir körfuboltann, stúku við knattspyrnuvöll og síðast en ekki síst handboltahúsi. Í þessum samningi var horft til framtíðar með metnaði og rík þörf hverfisins fyrir mannsæmandi aðstöðu til íþróttaiðkunnar loksins viðurkennd.

Helsti hvatamaður þessa samnings var Guðlaugur Þór Þórðarson þingmaður, fyrrverandi formaður Fjölnis. Gulli hefur frá upphafi reynst æskulýðsmálum hverfisins afskaplega ötull baráttumaður hvort sem litið er til íþrótta eða lista. Formannstíð hans hjá Fjölni einkenndist af uppbyggingu og framsýn. Það er fátt sem kappinn hefur ekki látið sig varða til góðs í hverfinu. Þá er framganga hans í skuldamálum heimila landsþekkt og til fyrirmyndar. Grafarvogsbúar hafa áður stutt Gulla til góðra verka og munu að sjálfsögðu halda því áfram í komandi prófkjöri og kosningum. Við þurfum fleiri Gulla á þing og nokkra álíka í borgarstjórn.

Lausnir á aðstöðuvanda félagsins sem standa hverfinu til boða í dag eru borgaryfirvöldum til háborinnar skammar og hægagangur og hringlandaháttur í afgreiðslu mála innan borgarkerfisins hrein móðgun við Grafarvogsbúa og iðkendur félagsins. Í stað framkvæmda koma endalausar afsakanir, afsakanir og fyrirsláttur sem eru óásættanleg með öllu enda er hluti iðkenda félagsins á götunni í dag með æfingar og keppni.
Við sem störfum fyrir Fjölni fáum oft að heyra frá borgarspekúlöntum að vandamálið sé að fjöldi iðkenda félagsins sé svo mikill. Það er ekki vandamál í mínum huga.. það eru góðu fréttirnar.

facebooktwittergoogle_plusredditpinterestlinkedinmailfacebooktwittergoogle_plusredditpinterestlinkedinmail
facebooktwittergoogle_pluslinkedinrssyoutubefacebooktwittergoogle_pluslinkedinrssyoutube