Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar frá 21. mars 2009

Þann 21. mars 2009 kom yfirlýsing frá ríkisstjórninni. Þar kom fram að; “erfiðleikum á íslenskum fjármálamarkaði sé að ljúka” og að það sé “sannfæring ríkisstjórnarinnar að ekki komi til frekari lokana íslenskra innlánsstofnana”.

Eftir 21. mars 2009 hafa 7 fjármálaþjónustufyrirtæki fallið, þ.e. Sjóvá (apríl 2009), VBS, Askar, Avant, Sparisjóður Keflavíkur, Byr sparisjóður (2010), Spkef (2011) og til viðbótar uppfyllir Byr hf. ekki lögbundnar eiginfjárkröfur (2011).  Af framangreindum fyrirtækjum eru  fjögur innlánsstofnanir.

Steingrímur J. Byr og Spkef

Þann 20. ágúst 2009 tóku gildi lög um Bankasýslu ríkisins. Í lögunum segir að: Bankasýslan eigi að fara ,,með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum í samræmi við lög, góða stjórnsýslu- og viðskiptahætti og eigendastefnu ríkisins á hverjum tíma, og leggur þeim til fé fyrir hönd ríkisins á grundvelli heimildar í fjárlögum.“
Það hefur gengið eftir nema í tilviki Byrs og Spkef. Þar hefur fjármálaráðherra sjálfur farið með eignarhlut ríkisins. Skoðum aðeins hvernig það hefur gengið.

Sparisjóður Keflavíkur

Samkvæmt ársreikningi Sparisjóðs Keflavíkur fyrir árið 2008, sem undirritaður er 31. mars 2009, var eigið fé hans jákvætt um 5,4 milljarða króna.  Eiginfjárhlutfall var 7.06% og því rétt undir 8% lögbundnu lágmarkshlutfalli.

Í fréttatilkynningu frá Sparisjóðnum þann 3. apríl 2009 vegna ársreikningsins segir:

Útlánaskoðun Fjármálaeftirlitsins hjá Sparisjóðnum í Keflavík fyrri hluta marsmánaðar leiddi til enn frekari niðurfærslu á útlánaeignum en drög að ársuppgjöri gerðu ráð fyrir. Við reikningsskilin um áramót hefur að fullu verið tekið tillit til þeirra ábendinga sem þýðir að í ársreikningi er eiginfjárhlutfall (CAD) sparisjóðsins 7,06%, eins og það er skilgreint í 84. gr. laga nr. 161/2002.

Sjá fréttatilkynningu:

Þar sem sparisjóðurinn var undir lögboðnu 8% hlutfalli sendi hann FME greinargerð um ráðstafanir til að lagfæra hlutfallið.

Í maí 2009 veitti FME sparisjóðnum heimild til að koma eiginfjárhlutfallinu yfir lögbundið lágmark, skv. 86. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Slíka heimild má veita til 6 mánaða og byggir á því mati FME að mögulegt sé fyrir fjármálafyrirtæki að lagfæra eiginfjárstöðuna. Heimildina má framlengja um aðra sex mánuði „séu til þess ríkar ástæður“. Sparisjóður Keflavíkur fékk þannig að starfa í 12 mánuði með eiginfjárhlutfall undir lögbundnu lágmarki, sem gat eingöngu byggt á því mati FME að félagið væri lífvænlegt.

Af hverju undanþága?

Gagnrýna má að sparisjóðurinn fékk að starfa á undanþágu lengur en 6 mánuði.  Spyrja má hvaða á hvaða forsendum FME byggði þá ákvörðun.

Hvað lá að baki ákvörðun um nýjan sparisjóð?

Þann 22. apríl 2010 greip FME inn í starfsemi Sparisjóðsins í Keflavík og skipti honum upp í gamlan og nýjan.  Ekki liggur fyrir á hvaða forsendum ákveðið var að stofna nýjan sparisjóð eða hvaða útreikningar eða mat um rekstrarhæfi lágu að baki.

Hvar eru ársreikningar og stofnefnahagsreikningur?

Ársreikningur Sparisjóðsins í Keflavík fyrir 2009, stofnefnahagsreikningur nýja SpKef eða ársreikningur SpKef fyrir 2010 hafa ekki verið birtir sem er brot á lögum um fjármálafyrirtæki.

Á hausinn 10 mánuðum eftir stofnun!

Stofnun nýja SpKef virðist hafa verið gerð af svo mikilli vanhæfni að nýi sjóðurinn komst í þrot tæpu ári síðar eða í mars 2011.  Spyrja má hversu miklir fjármunir töpuðust við stofnun nýja sjóðsins – hver var t.d. rekstrarkostnaður hans frá apríl 2010 og mars 2011 og hversu mikið eignir hafa rýrnað?

Skeikar aðeins 27 milljörðum!

Ákveðið var að SpKef myndi sameinast Landsbankanum.  Gerð var áætlun um kostnað vegna þessa og hermdu fréttir að kostnaðurinn væri 11 milljarðar að mati ríkisins.  Samkvæmt fréttum í Viðskiptablaðinu 18 ágúst 2011 er það mat Landsbankans að kostnaðurinn sé um 38 milljarðar.  Þarna skeikar 27 milljörðum (eða um 250%). Sjá frétt.

Hvað var eiginlega í gangi?

Eftir stendur að eigið fé sjóðsins upp á 5,4 milljarða í árslok 2008 er orðið að engu og verra en það, því ríkið þarf að leggja til stórfé. Ríkið hefur endurtekið vanmetið stöðu sjóðsins, fyrst á meðan sjóðurinn var í undanþáguferli hjá FME (í eitt ár), aftur við skiptingu sjóðsins í nýjan og gamlan (22. apríl 2010) og í þriðja skiptið við samrunann við Landsbankann (mars 2011).  Eignir sjóðsins hafa rýrnað verulega á meðan á þessu hefur staðið.  Verðmætið hefði verið betur tryggt ef sjóðurinn hefði strax farið í slitameðferð þegar sýnt var að hann myndi ekki geta aukið eigið fé sitt, sem hlaut að hafa verið ljóst eftir sex mánaða undanþágu frá eiginfjárkröfum.

Var löglegt að veita starfsleyfi?

Til viðbótar eru rökstuddar efasemdir um að löglegt hafi verið að veita nýja Spkef sjálfkrafa starfsleyfi í apríl 2010.  Sé það rétt var sjóðurinn rekinn án starfsleyfis í tæpt ár, sem getur þýtt enn frekari skaða fyrir ríkið og/eða Landsbankann.

Aðrar fjármálastofnanir þurftu að fara að lögum

Að síðustu má ekki gleyma því að SpKef hefur síðustu 2 ár verið í bullandi samkeppni, m.a. að taka við innlánum, án þess að uppfylla lögbundnar kröfur.  Ríkið ber ábyrgð á því að raska samkeppnisstöðu með því að láta félag sem skorti rekstrarhæfi keppa við önnur sem gerðar voru fullar kröfur til.

BYR

Svipaða sögu er að segja af Byr og Sparisjóði Keflavíkur.

Ársreikningur Byr fyrir árið 2008, sem gerður var í mars 2009, sýnir jákvætt eigið fé upp á 16 milljarða.  Eiginfjárhlutfall var 8,3% og því yfir lögbundnum mörkum.

Sjá fréttatilkynningu um uppgjörið:

Hvar er ársreikningurinn frá árinu 2009?

Engu að síður var Byr kominn í feril skv. 86. gr. laga um fjármálafyrirtæki um miðjan júní 2009.  Má vísa í það sem segir varðandi Sparisjóð Keflavíkur um þann feril.  Enginn ársreikningur fyrir 2009 liggur fyrir og er það brot á lögum um fjármálafyrirtæki.

Uppfyllti ekki kröfur um eigið fé við stofnun!

Þann 22. apríl 2010 greip FME inn í starfsemi Byr og skipti félaginu upp í gamlan og nýjan.  Nýi Byr hélt áfram starfsemi, en samkvæmt uppgjöri er ljóst að félagið uppfyllti ekki við stofnun eða á árinu 2010 kröfur um eigið fé.  Fram kemur í ársreikningi að það hafi verið 5% sem er langt undir því 16% lágmarki sem FME gerir kröfu um. Sjá fréttatilkynningu um uppgjör.

Af hverju leppaði fjármálaráðherra fyrir kröfuhafa?

Mikil leynd og pukur hafa einkennt málefni Byr, s.s. varðandi fyrirkomulag eignarhalds. Er ég þar að vísa í leppun fjármálaráðuneytisins sem Ólafur Arnarson fjallaði um hér:

113 milljarðar hurfu á tveim árum!

Eftir stendur að Byr fékk að starfa í 10 mánuði á undanþágu skv. 86. gr. laga um fjármálafyrirtæki.  Það hlaut að byggja á því mati FME að félagið væri lífvænlegt – sem ekki var raunin.  Síðan var stofnaður nýr Byr sem virðist ekki geta  lifað sjálfsætt. Sama vanmatið og með Sparisjóð Keflavíkur – og sóun fjármuna.  Samkvæmt Viðskiptablaðinu 8. september 2011 hafa eignir Byr rýrnað um 113 milljarða síðustu 2 ár í umsjón  ríkisins.  Sjá frétt.

Rekstur Byrs sl. 2 ár án þess að uppfylla lögbundnar kröfur hefur sömu neikvæðu samkeppnisáhrifin og með SpKef.

VBS og Saga Capital

Einnig má minna á lánveitingarnar til VBS upp á 26 milljarða og Sögu Capital upp á 19 milljarða.  Ekki liggur fyrir á hvaða áætlunum eða forsendum þessi fyrirgreiðsla byggðist – eða á hvaða lagaheimild byggt var.  Einnig er ljóst að FME taldi „eiginfjársnúninga“ fyrirtækjanna ekki samræmast alþjóðlegum eiginfjárreglum, en lét það viðgangast, sbr. Viðskiptablaðið 21. apríl 2009.

Fyrirgreiðslan skaðaði samkeppni á markaðnum, enda gátu fyrirtækin haldið áfram að keppa í skjóli ríkisfyrirgreiðslunnar við önnur sem nutu þessa ekki.  Jafnframt rýrnuðu eignirnar, m.a. vegna rekstrarkostnaðar.

Landsdómur

Steingrímur J. fór mikinn eftir hrun og vildi setja fjóra fyrrverandi ráðherra í fangelsi og beitti sér fyrir því. Honum tókst að koma einum fyrir Landsdóm og er kostnaður skattgreiðenda af því vel á annað hundrað milljónir. Hann taldi að þeir hefðu átt að gera eitthvað sem ekki er enn ljóst hvað er í aðdragenda hrunsins. Í þeirri umræðu var mikið rætt af fylgismönnum málaferla um vanrækslu þáverandi ráðherra.

Allur sá málatilbúnaður var á sandi byggður og ekki sæmandi í réttarríki en ef Steingrímur J. er sjálfum sér samkvæmur þá er mun auðveldara fyrir hann að benda á mistök og vanrækslu varðandi þessa tvo sparisjóðii en málinu gegn Geir H. Haarde.

[Viðauki:
86. gr. laga um fjármálafyrirtæki:
86. gr. Upphafsaðgerðir vegna ónógs eigin fjár.
Hafi stjórn eða framkvæmdastjórar fjármálafyrirtækis ástæðu til að ætla að [eiginfjárgrunnur]1) þess sé undir lögbundnu lágmarki ber þeim þegar í stað að tilkynna það Fjármálaeftirlitinu. Sambærileg skylda hvílir á endurskoðanda hlutaðeigandi fyrirtækis hafi hann ástæðu til að ætla að stjórnendur þess hafi ekki rækt skyldu sína skv. 1. málsl. þessarar málsgreinar.
Er Fjármálaeftirlitinu berst tilkynning skv. 1. mgr. eða telur af öðru tilefni ástæðu til að ætla að [eiginfjárgrunnur]1) fjármálafyrirtækis sé undir því lágmarki sem kveðið er á um í 84. gr. skal það krefja stjórn fyrirtækisins þegar í stað um reikningsuppgjör sem henni ber að afhenda innan hæfilegs frests. Fjármálaeftirlitið getur ákveðið að slíkt reikningsuppgjör sé áritað af endurskoðanda.
Komi fram í reikningsuppgjöri að hætti 2. mgr. að [eiginfjárgrunnur]1) fjármálafyrirtækis fullnægi ekki ákvæðum 84. gr. skal stjórn þess án tafar boða til fundar hluthafa eða stofnfjáreigenda til ákvörðunar og afhenda síðan Fjármálaeftirlitinu greinargerð þar sem fram kemur til hverra ráðstafana hún hyggst grípa af þessu tilefni. Greinargerð þessi skal afhent innan frests sem Fjármálaeftirlitið tiltekur.
Þegar Fjármálaeftirlitinu hafa borist gögn skv. 3. mgr. er því heimilt að veita hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki frest í allt að sex mánuði til þess að auka [eiginfjárgrunn]1) að lágmarki skv. 84. gr. Séu til þess ríkar ástæður er Fjármálaeftirlitinu heimilt að framlengja þennan frest í allt að sex mánuði til viðbótar. Berist greinargerð skv. 3. mgr. ekki innan tilskilins frests, séu úrræði samkvæmt greinargerðinni ekki fullnægjandi að mati Fjármálaeftirlitsins eða líði frestur samkvæmt þessari málsgrein skal afturkalla starfsleyfi, sbr. 9. gr.]

facebooktwittergoogle_plusredditpinterestlinkedinmailfacebooktwittergoogle_plusredditpinterestlinkedinmail
facebooktwittergoogle_pluslinkedinrssyoutubefacebooktwittergoogle_pluslinkedinrssyoutube