Kolbeinn Óttarsson Proppé núverandi blaðamaður og fyrrverandi varaborgarfulltrúi R-listans og oddviti VG í Suðurkjördæmi skrifar um mig í Fréttablaðinu sl. fimmtudag. Ég kemst ekki hjá því að leiðrétta rangfærslur í grein hans.

Kolbeinn segir: „Í þriggja ára ráðherratíð Guðlaugs fór spítalinn 5,1 milljarð fram úr fárlögum.“ Nú er skemmst frá því að segja að ég var ráðherra frá 24. maí 2007 til 1. febrúar 2009. Það gerir 20 mánuði. Hvernig hann kemst að þeirri niðurstöðu að hallinn hafi verið 5,1 milljarður er mér hulin ráðgata. Því síður skil ég af hverju hann er að skamma mig fyrir rekstur Landspítalans. Kolbeinn veit að ég tók á rekstri Landspítalans þegar ég var ráðherra. Þá hafði verið gríðarlegur halli á spítalanum í mörg ár. Ég greip til aðgerða og setti m.a. af stað nefnd sem þáverandi forstjóri kallaði tilsjónarnefnd. Í framhaldinu kom ég á faglegri stjórn á spítalanum og nýr forstjóri var ráðinn eftir auglýsingu en það hafði ekki verið gert áður.

Árangurinn skilaði sér ekki eingöngu í betri rekstri heldur einnig í meiri afköstum á spítalanum. Styttri biðlistum, meiri þjónustu o.s.frv.

Á forsíðu Fréttablaðsins þann 29. ágúst 2008 er frétt um bættan rekstur spítalans og þar kemur fram að hallinn eftir sex mánuði var 0,8% miðað við 5,5% á sama tíma árið á undan. Niðurstaðan var 0,6% halli á rekstri en vegna falls krónunnar þá var heildarhallinn meiri. Landspítalinn hefur þá sérstöðu á meðal ríkisstofnana að rekstur hans er að nokkrum hluta háður gengi krónunnar, aðallega vegna lyfjakaupa. Það hefur enginn mér vitanlega haldið því fram að stjórnendur spítalans eða ráðherra heilbrigðismála geti haft stjórn á gengi krónunnar.

Það má nefna fleiri dæmi um það hvernig ég tók á rekstrarvanda stofnana og hvernig ég vann að sparnaði og bættri þjónustu. Ég fór óhræddur í þau verk og ég fagna því ef fjölmiðlar sýna því áhuga og skoða verk mín og árangur.

Það að taka á rekstrarvanda opinberra stofnana fyrir hrun var vanþakklátt og einmanalegt starf. Ég var gagnrýndur harðlega og þá sérstaklega af félögum Kolbeins í VG. Gagnrýnin var oft á tíðum persónuleg og rætin.

Það sem mér finnst verst við að skrif Kolbeins er að hann veit betur. Ég gaf honum líka tækifæri til að leiðrétta rangfærslurnar en hann kaus að gera það ekki.

facebooktwittergoogle_plusredditpinterestlinkedinmailfacebooktwittergoogle_plusredditpinterestlinkedinmail
facebooktwittergoogle_pluslinkedinrssyoutubefacebooktwittergoogle_pluslinkedinrssyoutube