Það er full ástæða til að fagna niðurstöðu skýrslu Ríkisendurskoðunar um kostnað ráðuneyta við aðkeypta þjónustu, ráðgjöf og sérverkefni starfsmanna félagsvísindasviðs Háskóla Íslands.  Ég fór fram á að skýrslan yrði gerð eftir að hafa fengið rangt svar frá Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Ríkisendurskoðun staðfesti að svarið hafi ekki verið rétt og segir orðrétt í skýrslunni:  „að svarið hafi verið ófullnægjandi miðað við þann skilning sem ráðuneytið lagði í fyrirspurnina“.

Skýrslan er áfellisdómur yfir vinnubrögðum forsætisráðherra.  Hún staðfestir að það er mikilvægt að þingið hafi eftirlit með framkvæmdavaldinu.  Það þarf að styrkja eftirlit þingsins með framkvæmdavaldinu enn frekar. Það er mjög alvarlegt sé að það þurfi aðkomu Ríkisendurskoðunar til að fá fram rétt svör.  Skýrslan er fróðleg og við lestur hennar kemur í ljós að vinnubrögðum hefur verið ábótavant. Það er mikilvægt að farið verði eftir ábendingunum sem koma fram í skýrslunni og mun ég  fylgja því eftir þegar þingið kemur saman í haust.

Forsætisráðherra reyndi allt til að svara ekki þessari fyrirspurn!

Forsagan er rakin í minnisblaði sem birt var hér á heimasíðunni. Þar segir: Forsaga málsins er sú að Óli Björn Kárason, þá sitjandi varaþingmaður, spurði forsætisráðherra 16. júní 2010 m.a. um hvernig kostnaðurinn skiptist eftir einstökum aðkeyptum sérverkefnum, þjónustu og ráðgjöf, sundurgreint annars vegar eftir háskólum og hins vegar eftir einstökum starfsmönnum og kennurum. Svar forsætisráðherra við þessari fyrirspurn var mjög ófullnægjandi en þar sagði t.d. að ekki væri hægt að svara þessu að öllu leyti þar sem starfsmannalistar lægju ekki fyrir. Það var mikill undansláttur því t.d. eru starfsmannalistar háskólanna aðgengilegir á netinu, ef svo háttaði raunverulega til að ráðuneytin hefðu ekki haft þessar upplýsingar í upphafi. Til að knýja á um ýtarlegra svar fylgdi undirritaður málinu eftir á Alþingi með nýrri fyrirspurn. Til að einfalda forsætisráðherra söfnun upplýsinganna var þó bara beðið um upplýsingar um starfsmenn félagsvísindasviðs Háskóla Íslands. En því miður var svarið sem barst við þessari nýju fyrirspurn heldur ekki fullnægjandi og þess vegna er nú beðið um sjálfstæða athugun ríkisendurskoðunar.

Jóhanna reyndi að hafa áhrif á störf Ríkisendurskoðunar

Þessi fyrirspurn var ekki forsætisráðherra að skapi. Ekki vakti það heldur kátínu í stjórnarráðinu þegar að Alþingi fór fram á skýrslu frá Ríkisendurskoðun. Gremja ráðherrans var slík að hún sendi eftirlitsstofnun Alþingis bréf þar sem hún leggur Ríkisendurskoðun línurnar fer fram á að rannsókn stofnunarinnar eigi að fara fram á sömu forsendum og svar hennar við fyrirspurninni. Sjá umfjöllun á T24.is.

facebooktwittergoogle_plusredditpinterestlinkedinmailfacebooktwittergoogle_plusredditpinterestlinkedinmail
facebooktwittergoogle_pluslinkedinrssyoutubefacebooktwittergoogle_pluslinkedinrssyoutube