139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1738  —  858. mál.

Svar

velferðarráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um endurbætur á húsnæði Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.

Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Af hverju hefur ekki verið hafist handa um endurbætur á húsnæði Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi þrátt fyrir fjárveitingar upp á 90 millj. kr. árið 2010 og 62 millj. kr. árið 2011 til endurbóta á eldra húsnæði?

Frá því um mitt ár 2010, þegar framkvæmdum var að ljúka við viðbyggingu við sjúkrahúsið á Selfossi, hefur verið unnið að undirbúningi endurnýjunar og breytinga sem gera þarf á eldri hluta hússins. Áður en sjálf vinnan við hönnun endurbóta hófst var unnin forsögn að þeirri starfsemi sem vera ætti í húsinu. Sú vinna hefur reynst tímafrek og margir þurft að koma að því verki, bæði starfsmenn sjúkrahússins og ráðuneytisins. Upp úr síðastliðnum áramótum náðist samstaða um þær forsendur sem endurhönnun gamla hlutans mun byggjast á. Samkvæmt þeim verður rekin bráðamóttaka í húsinu en þar verður auk þess góð aðstaða til að veita sérfræðiþjónustu af ýmsu tagi. Legudeild verður endurbætt og henni breytt til að uppfylla þær kröfur sem nú eru gerðar til sjúkrarýma. Aðstaða fyrir aðra sjúkraþjónustu verður einnig bætt.

Vinna við frumhönnun þessa verks er hafin og stefnt að því að henni ljúki upp úr miðju sumri. Þá mun strax verða leitað heimilda til verkhönnunar og útboðs framkvæmda í framhaldi af því. Erfitt er að segja til um hve langan tíma framkvæmdir munu taka. Það fer meðal annars eftir því hvað unnt verður að taka stóran hluta hússins til endurbóta í hverjum verkáfanga og hve mikil truflun má verða á núverandi starfsemi.

Vonir standa til þess að framkvæmdir geti hafist síðar á árinu og að þær verði til hagsbóta fyrir starfsemi Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og þá sem þurfa á þjónustu hennar að halda.

facebooktwittergoogle_plusredditpinterestlinkedinmailfacebooktwittergoogle_plusredditpinterestlinkedinmail
facebooktwittergoogle_pluslinkedinrssyoutubefacebooktwittergoogle_pluslinkedinrssyoutube