Grunnurinn að Icesave málinu er tilskipun ESB um innistæðutryggingar. Þegar Íslendingar innleiddu tilskipunina árið 1999 var ekki mikið rætt um hugsanlegar hættur sem væru því samfara. Jóhanna Sigurðardóttir og Ögmundur Jónasson sýndu hins vegar af sér fádæma dómgreindarbrest. Tillaga þeirra var að ábyrgð á innistæðum yrði ótakmörkuð í stað þess að miða við hámark sem nam 20.887 evrum. Sem betur fer var tillaga þeirra felld af miklum meirihluta þingmanna.

Nú er verið að ganga frá hinu svokallað Icesave máli en lítið rætt um þá hlið málsins er snýr að innistæðutryggingakerfinu. Brotalöm í tilskipun ESB er þó órjúfanlegur hluti af Icesave-deilunni.

Nýja innistæðutryggingakerfið

Fyrir þinginu liggur frumvarp frá efnahags- og viðskiptaráðherra um innistæðutryggingakerfi. Það er byggt á nýrri tilskipun ESB sem ekki hefur verið samþykkt af EES löndunum.  Helstu breytingarnar eru eftirfarandi

1. Orðalag ákvæðisins um tryggingar á innistæðum breytist þannig að í stað shall stipulate kemur shall ensure. Stjórnarmeirihlutinn hefur túlkað þetta með þeim hætti að ríkisvaldið verði að tryggja fjármögnun innistæðutryggingasjóðsins ef og þegar hann þarf að taka lán til að geta staðið við skuldbindingar sínar. Það er erfitt að sjá muninn á því að þurfa að tryggja fjármögnun og ríkisábyrgð.

2. Innistæðutryggingin hækkar úr 20.887 evrum í 100.000 evrur. Eða úr 3.3 milljónum króna í 15,8 milljónir fyrir hvern innistæðueigenda í viðkomandi fjármálastofnun.

3. Iðgjald fjármálafyrirtækja hækkar og útgreiðsluskilmálar eru hertir.

Hugmyndin stjórnarliða er að Tryggingasjóðurinn verði deildaskiptur þannig að gamla deildin haldi utan um ,,Icesave“ skuldbindingarnar og aðrar skuldbindingar sem tengjast hruninu. Ekki er vitað hversu miklar skuldbindingarnar verða þar sem eftir er að útkljá fjölmörg mál fyrir dómstólum. En innistæðueigendur í Evrópu eru að sækja á Tryggingasjóðinn. Forstöðumaður Tryggingasjóðsins benti á að það gæti reynst erfitt að fá deildarskiptinguna viðurkennda. Þannig sé vafasamt að hægt sé að vísa á þeim sem gerir kröfu á sjóðinn á gjaldþrota deild þegar um fleiri deildir eru að ræða hjá sama lögaðilanum, Tryggingasjóðnum.

Noregur gætir sinna hagsmuna ekki Ísland

Tilskipunin hefur ekki verið innleidd í EES samninginn. Ástæðan er að Norðmenn hafa staðið á bremsunni og vilja fá leyfi til að hafa vernd á innistæðum hærri. Þeir geta það sökum  fjárhagslegrar stöðu sinnar.

Enginn íslenskur ráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur gætt hagsmuna Íslendinga í þessu máli. Brusselferðirnar hafa verið nýttar í annað.

 

Gengur ekki upp fyrir Ísland

Tryggingar eru í eðli sínu dreifing á áhættu. Innistæðutryggingakerfið er þar engin undantekning en það á uppruna sinn í Bandaríkjunum þar sem allar fjármálastofnanir sem að taka við innlánum eru í aðilar að kerfinu með greiðslu iðgjalda.  Í Evrópu er hverju ríki gert að setja upp sinn eigin tryggingasjóð. Það gengur ekkert sérstaklega vel upp í fjölmennum ríkjum Evrópu og það er fullkomlega vonlaust í minni ríkjunum og er Ísland gott dæmi um það.

Innistæður á Íslandi eru 1500 milljarðar!

Innistæður á Íslandi eru 1500 milljarðar eða þrisvar sinnum íslensku fjárlögin. Á Íslandi eru þrír bankar með 70-80% af þeirri upphæð og þeir eru svipaðir að stærð. Það þýðir að dreifing áhættunnar er sáralítil. Miðað við þá útreikninga sem viðskiptanefnd Alþingis fékk í hendurnar þá tekur það nær heila öld að safna í tryggingasjóð sem stæði undir innistæðum í einum banka ef svo illa færi að kæmist í þrot.

Því hefur verið haldið fram að bankar muni ekki falla í framtíðinni. Reynslan kennir okkur annað og það er sömuleiðis nokkuð öruggt að ef fyrningaleið ríkisstjórnarinnar verður farin muni ríkisbankinn – Landsbankinn – ekki standa eftir það!

Gerum ekki sömu mistök aftur!

Okkur er öllum ljóst að við hefðum betur vandað lagasetningu fyrir hrun. Einnig væri betur fyrir okkur komið ef við hefðum metið áhættu betur en við gerðum. Við breytum ekki hinu liðna en það er enginn ástæða til að endurtaka mistökin. Það eru stór mistök að samþykkja frumvarp ríkisstjórnarinnar óbreytt. Með því er verið að blekkja almenning, búa til falskt traust og leggja allt þjóðarbúið undir.

facebooktwittergoogle_plusredditpinterestlinkedinmailfacebooktwittergoogle_plusredditpinterestlinkedinmail
facebooktwittergoogle_pluslinkedinrssyoutubefacebooktwittergoogle_pluslinkedinrssyoutube