Ég sendi bréf 10. september til forsætisráðherra. Tilefnið var breytingarnar á stjórnarráðinu. Þingið samþykkti breytingar sem fólu í sér sameiningu heilbrigðisráðuneytisins og félags- og tryggingamálaráðuneytisins og einnig var dómsmála- og mannréttindaráðuneytið og Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið sameinað í eitt ráðuneyti.

Breytingarnar voru einstaklega illa undirbúnar og vinnubrögð þingsins voru fyrir neðan allar hellur. Í þeim stutta texta sem fylgdi frumvarpinu voru gefin fyrirheit um miklar sameiningar stofnana og hagræðing boðuð í tengslum við þessar breytingar. Engin gögn voru lögð fyrir um hvernig að átti að ná fram þessum áformum þrátt fyrir beiðnir þar um.

Undir lok umræðunnar upplýsti hinsvegar formaður heilbrigðisnefndar að gögn og greinargerðar um væntanlegar sameiningar væru í forsætisráðuneytinu. Að því tilefni sendi ég forsætisráðherra bréf. Ég hef ekki enn fengið nein viðbrögð.

Bréfið:

Hæstvirtur forsætisráðherra

Jóhanna Sigurðardóttir

Í umræðum í þinginu þann 9. september 2010 upplýsti formaður heilbrigðisnefndar Þuríður Bachmann þingheim um að í forsætisráðuneytinu væru gögn og greinagerðir sem unnar hefðu verið í tengslum við breytingar á stjórnarráðinu.

Fram kom í frumvarpi til breytinga á lögum um stjórnarráðið og í umræðu um málið að fyrirhuguð er mikil hagræðing og sameiningar stofnana m.a. þvert á núverandi ráðuneyti. Engar upplýsingar fengust um þessar fyrirætlanir við þinglega meðferð málsins. Þrátt fyrir beiðnir þar að lútandi.

Það er fagnaðarefni að slíkar úttektir liggi fyrir og hér farið fram á að fá þessi gögn og greinagerðir.

Í nafni opinnar og gagnsærar stjórnsýslu er farið fram á skjóta og góða afgreiðslu þessarar beiðnar.

Með vinsemd og virðingu

Guðlaugur Þór Þórðarson

facebooktwittergoogle_plusredditpinterestlinkedinmailfacebooktwittergoogle_plusredditpinterestlinkedinmail
facebooktwittergoogle_pluslinkedinrssyoutubefacebooktwittergoogle_pluslinkedinrssyoutube