Fjölmiðlar hafa upplýst um mjög há laun einstaklinga í einni slitastjórn. Einnig hefur komið fram að einstaklingarnir hafa átt viðskipti við eigin félög. Slitastjórnir á Íslandi eru 17, af einhverjum orsökum er ekki áhugi hjá stjórnvöldum og fjölmiðlum að kanna laun hinna 16.

Steingrímur J. hneykslaðist og ætlaði að breyta þessu í febrúar 2010

Fram hefur komið, að í október 2008 var samið við skilanefndarmenn um 16.000 króna gjald fyrir unna tíma. Þótti mörgum nóg um og lýsti Steingrímur J. Sigfússon þáverandi fjármálaráðherra því yfir að hann ætla að beita sér fyrir því að þessi laun verði lækkuð. Hann sagði þann 18. Febrúar 2010:

,,Mér finnst þetta mjög háir reikningar, alveg dæmalaust háir ef, ef, ef þessar fjölmiðlafréttir eru, eru réttar, og þær eru, eru á skjön við veruleika líðandi stundar þar sem launafólk í almennt landinu þarf nú að sætta sig við.“

,,Mér finnst rétt og skylt að fara yfir þetta, í raun og veru hvort að ríkið getur með einhverjum ráðum, þá í gegnum aðkomu Fjármálaeftirlits og, og efnahags- og viðskiptaráðuneytis að þessu eða löggjafans. Nú, eða þá að ríkið sem kröfuhafi geti, geti beitt sér til þess að, að, að reyna tryggja það að það sé, launaákvarðanir almennt í samfélaginu séu, taki mið af veruleika dagsins í dag en ekki á liðnum tíma.“

Þrátt fyrir þessu stóru orð hefur það verið staðfest að þau tæki sem ráðherrann vísar í hafa í tæp þrjú ár ekki verið nýtt til að lækka hin ,,dæmalausu háu launin“. Reyndar hefur gjaldið hækkað og mun nú vera 35.000 krónur á tímann. Jafnframt berast fréttir af því að fyrirtæki í eigu einstaklinga í skilanefndum og slitastjórnum eigi greiðan aðgang að verkefnum hjá fjármálafyrirtækjum í slitameðferð. FME á að hafa eftirlit með einstaklingum í slitastjórnum.

Samkvæmt lögum hefur Fjármálaeftirlitið eftirlit með störfum stjórnarmanna í fjármálafyrirtækjum, m.a. samninga slíkra aðila við fyrirtæki í eigin eigu eða tengda aðila, sbr. 55. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002.

Þeir einstaklingar sem starfað hafa í skilanefndum og slitastjórnum hafa gengt störfum sem stjórnarmenn í fjármálafyrirtækjum, sbr. 4. mgr. 101 gr. laga um fjármálafyrirtæki og bráðabirgðaákvæði II við lögin, sbr. lög nr. 44/2009.

Þrotabú gömlu bankanna þriggja voru fjármálafyrirtæki með starfsleyfi til 19. júlí 2011 (Glitnir og Kaupþing) og 15. september 2011 (Landsbankinn) þegar starfsleyfi þeirra voru afturkölluð skv. fréttatilkynningu á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins. Jafnframt hafa þessi fyrirtæki greitt og greiða ennþá eftirlitsgjald til Fjármálaeftirlitsins samkvæmt lögum nr. 99/1999 um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

Þessu til viðbótar var með lögum nr. 78/2011 nýju ákvæði (101 gr. a) bætt við lög um fjármálafyrirtæki. Með því er Fjármálaeftirlitinu falið sérstakt eftirlit með starfsemi slitastjórna. Lög þessi tóku gildi í júní 2011 eða fyrir einu og hálfu ári síðan.

Árni Páll hækkaði framlag til FME um 548 milljónir á ári til að fylgjast með slitastjórnum!

Í desember 2011 hækkaði núverandi formaður Samfylkingarinnar þáverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, Árni Páll Árnason, framlög til FME um 548 milljónir. Hann sagði við það tækifæri; ,, afskaplega mikilvægt að staðið sé að baki öflugu eftirliti með fjármálastarfsemi í landinu. Verið væri að fela Fjármálaeftirlitinu ný verkefni, svo sem eftirlit með slitastjórnum bankanna, sem hingað til hefðu gengið eftirlitslausar. „Treystir þingið sér ekki til að fjármagna þau verkefni?” spurði hann.“

Það er því alveg ljóst að Fjármálaeftirlitið á að hafa eftirlit með starfsemi skilanefnda og slitastjórna.

Af hverju eru stjórnvöld að halda verndarhendi yfir hinum slitastjórnunum?

Það er óskiljanlegt af hverju;

1. Stjórnvöld hafa hækkað laun slitastjórnamanna

2. Stjórnvöld hafa ekki haft eftirlit með slitastjórnum þrátt fyrir skyldu þar um

3. Stjórnvöld/lífeyrissjóðir upplýsi ekki um laun annarra slitastjórna en Glitnis

Greinin birtist á Pressunni 17. febrúar 2013

facebooktwittergoogle_plusredditpinterestlinkedinmailfacebooktwittergoogle_plusredditpinterestlinkedinmail
facebooktwittergoogle_pluslinkedinrssyoutubefacebooktwittergoogle_pluslinkedinrssyoutube