Að minni beiðni kom FME á fund efnahags- og viðskiptanefndar. Við vildum ræða aðkomu þeirra að endurreikningi erlendra lána og stöðu bankanna.

Hverjir eiga bankanna?

Fram kom í máli FME  að erlendir vogunarsjóðir væru eigendur að 60% af stóru einkabönkunum. Það eru ekki góðar fréttir, einfaldlega vegna þess að vogunarsjóðir eru ekki góðir eigendur banka. Eðli slíkra sjóða er að þeir hafa skammtímasjónarmið að leiðarljósi.

Í lögum um fjármálafyrirtæki eru strangar reglur um eigendur fjármálafyrirtækja. Það má ekki hver sem er eiga fjármálafyrirtæki eða tryggingafélag. Í því sambandi er  meðal annars litið til orðspors viðkomandi og reynslu. Það er áhugavert að skoða eigendur íslensku bankanna í því ljósi.

Endurmat lána  yfir 100 milljarðar króna

Samkvæmt upplýsingum FME hefur endurmat lánasafna í  nýju bönkunum verið yfir 100 milljarðar króna. Af því hafa 76 milljarðar farið yfir til gömlu bankanna eða eigenda þeirra en 30 milljarðar eru virðisaukning í nýju bönkunum.

Þessar tölur sína að svigrúm til leiðréttinga hefur verið nýtt til annars en bara að leiðrétta lán þar sem að kröfuhafar hafa fengið 76 milljarða á undanförnum misserum.

FME nýtir ekki heimildir til að verja heimilin

Það er augljóst að styrkja þarf stöð neytenda á fjármálamarkaði. Framganga FME vegna útreikninga fjármálafyrirtækjanna á endurreikningi erlenda lána er enn ein staðfestingin á því.

FME hefur ekki gert athugasemdir við framkvæmd fjármálafyrirtækjanna á slíkum útreikningum. Félagasamtök, lögmenn, námsmenn og endurskoðendur hafa verið þeir sem að hafa bent á augljósa galla á löggjöfinni og framkvæmdinni.

Enn eru mál fyrir dómi og niðurstaðan mun skipta miklu fyrir stöðu lántakenda og fyrirtækjanna. Sum fjármálafyrirtæki telja sig vera í fullum rétti til að ganga á eigur fólks þrátt fyrir að þessi mál hafi ekki verið útkljáð.

Upplýst var að FME getur sent fjármálafyrirtækjunum tilmæli um að bíða með ganga á eigur fólks á meðan að dómsmálin eru útkljáð. FME hefur ekki nýtt sér það úrræði.

Það eru ekki góðar fréttir fyrir lántakendur.

Fjármögnunarfyrirtæki munu ekki þola dóma lántakendum í vil

Alkunna er að dómar hafa fallið nær undantekningalaust í gengislánamálum lántakendum í vil. Fjármálafyrirtæki hafa ávallt fullyrt að rétturinn væri þeirra megin og gera enn. Það er ljóst að ef að þau dómsmál sem enn eru í gangi falla lántakendum í vil munu ákveðin fyrirtæki ekki uppfylla kröfur um eiginfjárhlutföll og geta þar af leiðandi ekki starfað nema að til komi aukið eigið fé.

Alvarleg staða sparisjóðanna

Fram kom að margir sparisjóðir eru of litlir til að rekstur þeirra standi undir þeim kröfum sem eru gerðar til fjármálafyrirtækja. Þeir eru reknir með tapi og áframhaldandi taprekstur mun kalla á kröfur um aukið fé.

Það sem að ógnar sparisjóðunum er margt. Fjármálastofnanir munu bera aukin gjöld í formi hærri iðgjalda til Innistæðutryggingasjóðs, gjöld  til FME munu hækka og gert er ráð fyrir að sérstökum skatta á fjármálastofnanir.

Að auki er óvissa er um tölvuþjónustu við sparisjóðina þegar BYR h.f. rennur inn í Íslandsbanka.

Vanræksla stjórnvalda í málefnum sparisjóðanna

Sparisjóðirnir áttu í erfiðleikum með hefðbundinn rekstur fyrir bankahrun þannig að það hefur verið ljóst um langa hríð að sparisjóðakerfið er í fullkomnu uppnámi.

Ríkisstjórnin hefur hinsvegar enn ekki komið fram með stefnu í málefnum sparisjóðanna. Þrátt fyrir augljósa þörf og tillögur um úrbætur. Það er vanræksla sem að skattgreiðendur bera kostnaðinn af.

facebooktwittergoogle_plusredditpinterestlinkedinmailfacebooktwittergoogle_plusredditpinterestlinkedinmail
facebooktwittergoogle_pluslinkedinrssyoutubefacebooktwittergoogle_pluslinkedinrssyoutube