Í vikunni samþykkti ríkisstjórnarmeirihlutinn heimild til handa fjármálaráðherra til að greiða kostnað vegna sölu Byrs og Spkef. Þingmenn hafa ekki fengið umbeðnar upplýsingar um verklag og vinnubrögð fjármálaráðherra í tengslum við þessar tvær fjármálastofnanir þrátt fyrir margendurteknar fyrirspurnir. Hámarki náði leyndarhyggjan þegar að fjáraukalög voru samþykkt með hraði án þess að þingmenn fengu að kynna sér þá samninga sem lágu til grundvallar heimild fjármálaráðherra. Heimildin er opin og eru allar líkur á að skuldbindingar muni skipta milljörðum, jafnvel tugmilljörðum.

Þrátt fyrir leyndina er ljóst að fjármálaráðherra hefur brotið lög. Nánar tiltekið lög um fjármálafyrirtæki og lög um Bankasýslu ríkisins:

Byr og Spkef uppfylltu ekki lögbundnar eiginfjárkröfur

Samkvæmt 84. grein laga um fjármálafyrirtæki er slíkum fyrirtækjum ekki heimilt að starfa nema eiginfjárhlutfallið nái að lágmarki 8%. Undantekningin er að með leyfi FME, skv. 86. gr. laganna, getur fyrirtæki fengið við ákveðnar aðstæður undanþágu í sex mánuði og við sérstakar aðstæður allt að 12 mánuði samtals. Upplýst hefur verið að nýi/gamli Byr hefur því ekki uppfyllt lögbundnar eiginfjárkröfur í 28 mánuði í fullri samkeppni við önnur fyrirtæki sem hafa jafnvel þurft að uppfylla tvisvar sinnum hærri eiginfjárhlutföll en lög krefja

Ekki farið eftir lögum um Bankasýslu ríkisins

Þann 20. ágúst 2009 tóku gildi lög um Bankasýslu ríkisins. Í lögunum segir að Bankasýslan eigi að fara ,,með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum í samræmi við lög, góða stjórnsýslu- og viðskiptahætti og eigendastefnu ríkisins á hverjum tíma, og leggur þeim til fé fyrir hönd ríkisins á grundvelli heimildar í fjárlögum”.

Það hefur gengið eftir nema í tilviki Byrs og Spkef. Þar hefur fjármálaráðherra einhverra hluta vegna sjálfur farið með eignarhlut ríkisins.

Fjármálaráðherra leppaði fyrir kröfuhafa

Fjármálaráðuneytið og slitastjórn Byrs sparisjóðs gerðu með sér samkomulag þann  14. október 2010 um eignarhald á Byr hf. Samkvæmt því var kröfum slitastjórnar í Byr, vegna yfirfærslu eignasafna, breytt í hlutafé og var hlutafé 17,2 milljarðar króna. Fjármálaráðuneytið fór með 5,2 prósenta hlut en 94,8 prósenta hlutur varð eign Byrs sparisjóðs en í vörslu og umsjón fjármálaráðuneytisins, í samstarfi við slitastjórn Byrs sparisjóðs. Hafa átti þann hátt á þar til slitastjórnin kallaði eftir hlutnum, en miðað var við að það gerðist innan tveggja ára.

Það er mjög athyglisvert í ljósi þess að í júní 2010 var samþykkt frumvarp sem bannaði kröfuhöfum að eignast banka! Jafnframt staðfesti FME á fundi viðskiptanefndar að slitastjórn væri ekki heimilt að eignast bankann en það stöðvaði ekki ráðherrann í því að gera þetta samkomulag.

Hér eru ekki talin upp önnur atriði sem orka tvímælis og af nógu er að taka. Enginn getur haldið því fram að verklag ráðherrans hafi gefist vel. Þvert á móti hefur mjög lítið af fyrirætlunum ráðherrans gengið eftir og fóru t.d. nýstofnaðir bankar á grunni þeirra gömlu á höfuðið 10 mánuðum eftir stofnun. Þrátt fyrir yfirlýsingar um annað er ljóst að ríki og ríkisfyrirtæki munu bera gríðarlegan kostnað af ,,kaupum” á fyrirtækjunum. Síðan má ekki gleyma því að samkvæmt Viðskiptablaðinu 8. september 2011 hafa eignir Byrs rýrnað um 113 milljarða síðustu tvö ár í umsjón  ríkisins.

Stærsta spurningin er samt sem áður þessi: Af hverju í ósköpunum þarf fjármálaráðherra ekki að fara eftir lögum?

facebooktwittergoogle_plusredditpinterestlinkedinmailfacebooktwittergoogle_plusredditpinterestlinkedinmail
facebooktwittergoogle_pluslinkedinrssyoutubefacebooktwittergoogle_pluslinkedinrssyoutube