Það kom mjög á óvart þann 20. ágúst sl. þegar  tilkynnt var að Framtakssjóður Íslands hefði keypt nokkur stórfyrirtæki úr félaginu Vestia. Það félag var eignarhaldsfélags í eigu Landsbankans.

Sérstaklega í ljósi þess að þann 19. ágúst kom frétt í Morgunblaðinu þar sem sagði:

,,Sem stendur er Icelandic ekki í söluferli hjá Vestia, frekar en önnur félög í umsjá eignarhaldsfélagsins.”

Það var sömuleiðis gagnrýnt að ekki var farið eftir þeim verklagsreglum sem voru í gildi um sölu úr félaginu. Ég gagnrýndi það m.a. í pistli sem birtist á Pressunni.

Til að lægja gagnrýnisraddir fullyrtu þeir sem að komu að málum að þetta væru óþarfa áhyggjur vegna þess að það væri tryggt að farið yrði að reglum þegar að Framtakssjóðurinn seldi fyrirtækin.

Hvað sagði forstjóri bankasýslunnar?

Þann 24. ágúst 2010 kom fram í umfjöllun RÚV:

,,Forstjóri bankasýslu ríkisins segir að á heildina litið sé sala Landsbankans á eignarhaldsfélaginu Vestiu til lífeyrissjóðanna jákvæð þótt söluferlið hafi ekki verið gagnsætt. Málið horfi öðruvísi við því lífeyrissjóðir kaupi.”

Forstjóri bankasýslunnar:

,,Að mínu mati þá horfir málið aðeins öðruvísi við þegar verið er að selja Vestia með flestum eignum inn í fjárfestingafélag sem að er í óbeinni eigu þúsunda Íslendinga og þetta félag hefur það að markmiði að skrá fyrirtæki í sinni eigu á almennan markað og selja fyrirtækin innan tiltekins tíma og svo skilst mér að þessar verklagsreglur muni gilda áfram þótt að eignarhaldi verði breytt. Þannig að á endanum að þá fáum við sömu niðurstöðu.”

Hvað sagði forstjóri Landsbankans?

Þann 21. ágúst sagði forstjóri Landsbankans í viðtali við RÚV:

,,Vestia sem slíkt var selt en ekki undirliggjandi félög. Meiningin, það sem stendur á heimasíðunni, á við um þessi félög sem Vestia á. Ætlunin var, þegar bankinn hélt á Vestia, að setja það í slíkt söluferli. Markmið Framtakssjóðsins er alveg það sama, þannig að nú fer Vestia þangað og í fyllingu, fyllingu tímans að þá vænti ég þess að þetta gerist með nákvæmlega þessum hætti sem lýst er á heimasíðunni.”

Hvað sagði fjármálaráðherra?

11. nóvember 2010 Steingrímur J. í þinginu:

,,Í því sambandi er rétt að það komi fram að bankasýslan mun í ljósi eignarhalds Landsbankans nú á Framtakssjóðnum beina þeim tilmælum til sjóðsins að hann viðhafi verklagsreglurnar eins og bankinn ætti í hlut þegar að því kemur að þessi fyrirtæki verða skráð eða einhver einstök þeirra seld. Þá kemur að þeirri sölu þar sem slíkar verklagsreglur eiga að sjálfsögðu að vera í heiðri hafðar.”

Af hverju reglur?

Nú á sér stað mikil eignatilfærsla á íslandi. Í kjölfar bankahrunsins munu eignir skipta um eigendur fyrir tugi ef ekki hundruði milljarða. Við ættum að hafa lært að ef reglur eru ekki skýrar skapar það tortryggni. Tortryggni grefur undan trausti. Við þurfum á trausti að halda í íslensku viðskiptalífi. Það er forsenda framfara.

Ríkisstjórnarflokkarnir hafa gert hvað þeir geta til að gera hluti fortíðinni tortryggilega. M.a. einkavæðingar fortíðarinnar, það mátti örugglega margt betur fara þar og sjálfsagt að skoða þá hluti. Fortíðinni verður hins vegar ekki breytt en við getum lært af þeim mistökum sem voru gerð þá.

Tækifærið er núna!

facebooktwittergoogle_plusredditpinterestlinkedinmailfacebooktwittergoogle_plusredditpinterestlinkedinmail
facebooktwittergoogle_pluslinkedinrssyoutubefacebooktwittergoogle_pluslinkedinrssyoutube