Það er skrýtið ástand í stjórnmálunum í dag.  Yfirlýsingar ráðherra sem áður hefðu þótt uppsláttarmál hverfa í fjölda sérkennilegra pólitískra frétta.  Það er því ekki að undra að stjórnmálaskýrendur fjalli ekki mikið um að í raun hafa farið fram stjórnarskipti í landinu.

Í stað ríkisstjórnar Samfylkingar og VG er komin stjórn þessara flokka að viðbættu flokksbroti VG sem leitt er af Ögmundi Jónassyni fyrrverandi heilbrigðisráðherra. Með honum í þessu flokksbroti eru í það minnsta Liljurnar tvær Guðfríður Lilja og Lilja Mósesdóttir.

Staðan í stjórnmálunum er ekki ósvipuðu því þegar að vinstri stjórn Steingríms Hermannssonar starfaði á árunum 1988-91. Þá þurfti stjórnin að reiða sig á stuðning frá Stefáni Valgeirssyni sem þá var óháður þingmaður og síðan hluta af Borgaraflokknum.

Það er ákveðin kaldhæðni að á þingi eru tveir einstaklingar sem að voru ráðherrar í þessari ríkisstjórn. Jóhanna  Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon.

Orðræðan er sömuleiðis mjög keimlík. Forystumenn ríkisstjórnarinnar halda því fram að þeir séu að taka til eftir Sjálfstæðisflokkinn á meðan að stjórnarandstaðan gagnrýnir ríkisstjórnina fyrir óhófleg ríkisafskipti og skattahækkanir.

Vinstri stjórninni 1988-91 var marg oft spáð falli. Lífi stjórnarinnar var ítrekað bjargað með miklum pólitískum loftfimleikum og hrossakaupum. Límið í stjórninni var eins og nú andstaðan við Sjálfstæðisflokkinn. Menn skyldu ekki vanmeta heift vinstrimanna gagnvart Sjálfstæðisflokknum og ef þessi stjórn springur mun hefjast mikið áróðursstríð þeirra sem standa að stjórninni hver ,,leiddi“ Sjálfstæðisflokkinn til valda. Ögmundur Jónasson er nú í því hlutverki að vera ,,svart Pétur“ í stjórnarsamstarfinu. Hann mun ekki vilja vera í þeirri stöðu að vera kennt um að fyrsta ,,hreina“ vinstri stjórnin falli.

Framundan eru spennandi tímar fyrir þá sem hafa áhuga á stjórnmálum en þeir verða að sama skapi ekki  góðir fyrir þjóðina.

facebooktwittergoogle_plusredditpinterestlinkedinmailfacebooktwittergoogle_plusredditpinterestlinkedinmail
facebooktwittergoogle_pluslinkedinrssyoutubefacebooktwittergoogle_pluslinkedinrssyoutube