Það er greinilegt að ríkisstjórnarflokkarnir eiga erfitt með að standa frammi fyrir eigin verkum varðandi Icesave-samningana. Í stað þess að standa í lappirnar og mynda skjaldborg um íslenska þjóðarhagsmuni reyna þeir nú rugla umræðuna og koma ábyrgðinni á Icesavemálinu yfir á Sjálfstæðisflokkinn.

Röksemdafærslan er yfirleitt eitthvað á þá leið að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið í ríkisstjórn í 18 ár og þar af leiðandi sé allt sem miður fer í íslensku þjóðfélagi Sjálfstæðisflokknum að kenna. Þessi rök standast hins vegar ekki skoðun í Icesavemálinu.

Í fyrsta lagi verðum við að átta okkur á því að ástæðan fyrir því að gerð er krafa á Íslendinga vegna Icesave-reikninganna er  Evróputilskipun sem að við urðum að taka upp vegna aðildar okkar að EES samningnum. Tilskipunin var samin af Evrópusambandinu og það er að kröfu ESB sem við Íslendingar urðum að taka hana upp.

Tilskipunin er meingölluð og gerði augljóslega ekki ráð fyrir að kerfishruni í bankageiranum eins og við Íslendingar höfum fundið einir þjóða á eigin skinni.

Hverfum aðeins aftur um áratug til ársins 1999. Þáverandi ráðherra bankamála, Finnur Ingólfsson, mælti  þá fyrir frumvarpi um innstæðutryggingar og tryggingarkerfi fyrir fjárfesta. Lögin voru samþykkt á Alþingi í desember 1999. Með þeim voru lögleidd hér á landi fyrrnefnd ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins.

Í lögunum er kveðið skýrt á um ábyrgð innstæðutryggingasjóðsins og að ábyrgðin takmarkist við 20.887 evrur.

Hvað vildu Jóhanna, Steingrímur og Ögmundur?

En hvað sagði stjórnarandstaðan þá? Hvað lögðu þau Jóhanna, Steingrímur og Ögmundur til í þessu máli?

Kristinn H. Gunnarsson tryggingastærðfræðingur og fyrrverandi þingmaður rifjaði upp tillöguflutning þáverandi stjórnarandstöðu í pistli sem að hann skrifaði þann 1. júlí á heimasíðu sína:

,,Stjórnarandstöðunni þáverandi undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur, Steingríms J. Sigfússonar og Ögmundar Jónassonar þótti frumvarpið ekki ganga nógu langt. Þau flutti breytingartillögu og lögðu þar til að einstaklingur skyldu fá allar innstæður sínar bættar úr tryggingarsjóðunum en ekki bara lágmarkið.

Jóhanna rökstuddi tillöguna m.a. svona:

„Hér er sem sagt lagt til að full tryggingavernd sé hjá þeim sem eiga innstæður sínar í innlánsstofnunum og bönkum, þannig að þeir geti verið rólegir hvað sem á dynur, hvaða skakkaföll sem verða í bankakerfinu, þá munu þeir að fullu og öllu fá sínar innstæður greiddar.“

Tillagan var felld með 34 atkvæðum gegn 16. En hefði hún fengist samþykkt sé ég ekki betur en að Íslendingar hefðu orðið að bæta innstæður einstaklinga í Icesave-reikningum að fullu í stað lágmarksupphæðarinnar. Samþykktin hefði engu breytt hér á landi þar sem stjórnvöld ábyrgðust innstæður umfram lögboðið lágmark hvort sem er.

En í útibúum Landsbankans erlendis hefði tillagan skipt miklu máli. Engin von er til þess að stjórnvöld í Hollandi og Bretlandi, hvað þá innstæðueigendur þar, hefði fallist á að Íslendingar ábyrgðust ekki innstæður einstaklinga að fullu eins og lög hefði kveðið á um, ef tillaga ráðherranna þriggja hefði verið samþykkt í desembermánuði 1999 og aðeins lágmarksfjárhæðin látin duga.

Icesave skuldin er um 705 milljarðar króna. Ekki er alveg ljóst af greinargerð frumvarpsins um ríkisábyrgðina hvað hún hefði orðið há ef tillaga Jóhönnu og fleiri hefði verið samþykkt en ráða má að skuldin hefði hækkað um liðlega 400 milljarða króna og þá ríkisábyrgðin að sama skapi.“

Í öðru lagi þá er rétt að geta þess Sjálfstæðisflokkurinn fór ekki með viðskiptaráðuneytið, sem ber ábyrgð á málefnum bankanna, í eina mínútu af af þessum átján árum sem svo oft er vitnað til.

Reyndar var það í tíð Samfylkingarinnar sem Icesave-reikningar Landsbankans urðu að þeim myllusteini sem nú eru að sliga þjóðina. Ráðherra bankamála bar ábyrgð á þeim eftirlitsstofnunum sem höfðu eftirlit með bönkunum og starfsemi þeirra. Trúnaðarmenn samfylkingarráðherrans sátu í stjórn FME.

Við sjálfstæðismenn höfum aldrei haldið því fram að við berum enga ábyrgð. Þvert á móti hefur flokkurinn einn flokka farið í sérstaka vinnu til að skoða með mjög gagnrýnum hætti hvað fór miður á síðustu áratugum. Allir sjálfstæðismenn gátu tekið þátt í vinnunni og niðurstöðurnar voru gerðar opinberar síðastliðinn vetur.

Þeir sem báru ábyrgð á bankamálunum þegar Icesave-reikningarnir blésu út og þeir sem báru ábyrgð á hinum hrikalegu samningum við Breta og Hollendinga ættu að sjá sóma sinn í því kannast við krógann.

facebooktwittergoogle_plusredditpinterestlinkedinmailfacebooktwittergoogle_plusredditpinterestlinkedinmail
facebooktwittergoogle_pluslinkedinrssyoutubefacebooktwittergoogle_pluslinkedinrssyoutube