Mikil tíðindi urðu í dag. Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra lauk 12 ára valdatíð sinni (hann hafði lýst því yfir að hann yrði 12 ár í heilbrigðisráðuneytinu). Þessi 12 ár voru reyndar afar fljót að líða. Flestir eru sammála honum um að ríkisstjórnin hefur haldið illa á Icesave málinu og einnig held ég að allir skilji að ekki er nokkrum manni bjóðandi að sitja undir eilífum hótunum Samfylkingarinnar.

Það er hinsvegar ekkert nýtt í því og Ögmundur hefur kyngt hótunum samstarfsflokksins með þeirri réttlætingu að nær öllu sé fórnandi fyrir vinstri stjórn.

Það vekur líka athygli að hann lýsir yfir fullum stuðningi við þessa ríkisstjórn þrátt fyrir vinnubrögðin og stefnu stjórnarinnar.

En hvað með málaflokkinn sem að hann ber ábyrgð á? Í hvaða aðgerðir verður farið þar?

Nú hefur ráðherrann setið í sjö mánuði og á þeim tíma hefur hann ekki enn komið fram með áætlanir í tengslum við komandi niðurskurð. Hann hefur að vísu farið í flatan niðurskurð sem hefur komið harkalega niður á þjónustunni en þrátt fyrir fyrirheit um annað hafa ekki komið fram hugmyndir um samstarf á milli stofnana eða skipulagsbreytingar til að reyna að viðhalda þjónustunni á þessum viðkvæmu tímum. Það þýðir að heilbrigðisráðherra hefur ýtt vandanum á undan sér og þannig aukið við hann.

Staðan er grafalvarleg og spurningin er: Hvað er til ráða?

Málið er mjög einfalt. Það er einlægur vilji vinstri flokkanna að viðhalda þessu stjórnarsamstarfi. Þeir eru með meirihluta á þinginu. Enginn af núverandi þingmönnum eða ráðherrum stjórnarflokkanna hefur burði til að taka þetta verkefni að sér. Nýr ráðherra þarf tíma til að setja sig inn í málin. Sá tími er ekki til! Einnig verður nýr ráðherra að hafa kjark til að taka ákvarðanir sem eru erfiðar en nauðsynlegar.

Lausnin felst í því að fá til liðs við ríkisstjórnina aðila sem þekkir málaflokkinn og getur tekið nauðsynlegar ákvarðanir. Ef réttur einstaklingur fæst í stól ráðherra getur það verið farsælt. Núverandi dómsmálaráðherra er dæmi um það. Ég hvet forystumenn ríkisstjórnarinnar að kanna hvort Hulda Gunnlaugsdóttir eða Dr. Guðjón Magnússon væru ekki fáanleg til að taka að sér þetta vandasama verkefni.

facebooktwittergoogle_plusredditpinterestlinkedinmailfacebooktwittergoogle_plusredditpinterestlinkedinmail
facebooktwittergoogle_pluslinkedinrssyoutubefacebooktwittergoogle_pluslinkedinrssyoutube