Það hefur farið fram hjá mörgum í umræðum um ESB málin að ríkisstjórnarflokkarnir felldu tillögu um að íslenska þjóðin fengi að greiða atkvæði um væntanlegan samning um inngöngu Íslands í ESB.

Rök forystumanna ríkisstjórnarinnar voru þau að nóg væri að halda ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu.  Slíkt fyrirbæri er nýtilkomið og undirritaður hafði aldrei heyrt á það minnst fyrr en í þeirri umræðu sem að framan greinir.

Ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla fer þannig fram  að þjóðin kýs um væntanlegan samning og síðan ætla forystumenn ríkisstjórnarinnar að sjá til þess að „þeirra“ þingmenn greiði atkvæði á Alþingi í samræmi við hana!

Nú verður hver að meta það fyrir sig hvort að það er líklegt að Samfylkingarþingmenn muni greiða atkvæði á móti samningnum ef að atkvæðagreiðsla fer á þann veg að minna en 50% atkvæðabærra einstaklinga tækju þátt og höfnuðum honum t.d. með 5 atkvæðum. Ætli það myndi ekki heyrast hljóð úr horni.

Í 48 grein stjórnarskrár lýðveldisins Íslands segir að:

„Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.“

Það hefur sömuleiðis verið upplýst á alþingi að þingmenn munu ekki fara eftir skipunum sinna forystumanna. Það þýðir að í raun hefur ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla ekki annað vægi en að vera dýr skoðanakönnun.

Þrátt fyrir langa setu Steingríms J. og Jóhönnu Sigurðardóttir á Alþingi þá er hvergi minnst á þau í áðurnefndri stjórnarskrá. Því síður að þingmenn eigi að hlýða þeim.

Finnst þeim aðilum sem að styðja ríkisstjórnina og aðild Íslands að Evrópusambandinu þetta vera boðlegt?

facebooktwittergoogle_plusredditpinterestlinkedinmailfacebooktwittergoogle_plusredditpinterestlinkedinmail
facebooktwittergoogle_pluslinkedinrssyoutubefacebooktwittergoogle_pluslinkedinrssyoutube